fimmtudagur, júlí 19, 2007

Þroskaferli: Hreyfigeta Hugrunar og pelatilraun

Ef heimsókn Signýjar í Húsdýragarðinn hafi verið tímamót hjá henni (dramatískt áætlað) þá voru svo sannarlega tímamót hjá Hugrúnu um líkt leyti. Við leyfðum henni að prófa pela í fyrsta skipti. "Leyfðum" er ekki alveg lýsandi kannski, því hún sóttist ekki eftir pelanum, en drakk þó eitthvað og lét sig hafa það. Árangurinn veitir okkur von um að á næstunni komist Vigdís út úr húsi öðru hvoru ein síns liðs. Það er nauðsynlegt til að geta slakað almennilega á. Á meðan er ég að sjálfsögðu tilbúinn heima með pela. Núna er Vigdís til að mynda nýfarin upp í Kringlu og ætlar sér að vera þar í tvo tíma eða svo. Ég hef bara gaman af því að vera einn heima (enda sjaldan sem það hefur gerst eftir að Hugrún fæddist).

Hugrún dafnar mjög vel og óhætt að segja að hún styrkist hratt og örugglega. Hún heldur höfði auðveldlega og er orðin nokkuð nákvæm í fínhreyfingum handanna. Við settum hana í "leikfangaland", eins og við köllum það, fyrir um tveim vikum (þetta er teppi með boga yfir þaðan sem tuskudýr dangla fyrir ofan hana). Það var magnað að fylgjast með henni gaumgæfa tuskudýrin og fálma eftir þeim. Á örfáum mínútum mátti sjá hvernig hún náði sífellt betri tökum á hreyfingunum og var farin markvisst að slá til leikfanganna fyrir ofan sig. Núna er eins og hreyfingarnar séu orðnar enn fágaðri. Hún á það til í miðju brosi til manns að rétta út höndina og grípa í nefið, svo að ekki sé minnst á fingur, ef þeir eru nærtækari. Á teppinu þar sem Hugrún liggur öðru hvoru er greinilegt að hún er í óða önn að læra ný brögð. Hún er farin að "vagga" sér á gólfinu með því að lyfta upp fótunum í keng og snúa til vinstri og hægri. Þess verður ekki langt að bíða að hún snúi sér á magann, ef að líkum lætur.

Engin ummæli: