sunnudagur, júlí 15, 2007
Daglegt lif: Loksins upprisin
Nú erum við öll komin á ról eftir veikindatörnina og vonandi að ekki verði neitt bakslag úr þessu. Signý var orðin nokkuð góð á miðvikudaginn var en við héldum henni hitalausri heima á fimmtudag og föstudag. Fórum þó á stjá rétt fyrir helgi (að mestu innandyra í bílnum og verslunum) og kíktum í skemmtilegar búðir á Laugaveginum - bara svona til að skipta um umhverfi og svoleiðis. Fórum á Borgarbókasafnið í Tryggvagötu og nutum þess að leika okkur í barnahorninu. Kíktum líka í Skífuna þar sem ég gramsaði á meðan Signý dillaði sér í takt við vinsæla popptónlist. Það er alltaf gaman að kíkja þangað með henni og leyfa henni að valsa aðeins um (enda ákaflega geisladiskavön og fer vel með það sem hún finnur). Að lokum kíktum við í úrvarlsverslun efst a Laugaveginum, við Hlemm, sem ég held mikið upp á (og hef skrifað um áður). Hún heitir Völuskrín og er nýkomin með skemmtilega heimasíðu. Þar sýndi ég Signýju alls skyns hugmydarík leikföng en hún tók hins vegar ástfóstri við kyndugum göngustaf á hjólum. Hjólin snúa eins konar tannhjólum (úr gúmmíi) sem snúa skrautlegri fígúru utan um sjálfan stafinn. Þegar búðin lokaði vildum við hvorugt fara án stafsins og hefur hann síðan verið bæði fyrsta leikfang Signýjar að morgni og það síðasta sem hún skilur við sig að kvöldi (reyndar bara tvö kvöld liðin, en þetta hljómaði bara svo vel svona :-).
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli