þriðjudagur, október 10, 2006

Daglegt líf: Sérstakar verslanir

Nú er rúm vika liðin frá því feðraorlofið hófst. Við Vigdís höfum verið saman í fríi þessa vikuna vegna handarbrotsins. Í dag var gifsið hins vegar fjarlægt og útséð með það hvenær hún byrjar að vinna aftur. Það verður strax eftir næstu helgi.

Maður leyfir sér alls kyns munað þegar tíminn er nægur. Við njótum þess að taka á okkur krók til þess eins að versla þar sem okkur finnst best að versla. Við fundum afmælisgjöf í Nexus, sem er ævintýraleg sérverslun teiknimyndasöguunnenda. Við keyptum nettar tækifærisgjafir í versluninni Völuskrín, sem helgar sig spilum og þroskaleikföngum. Þar er algjörlega hægt að gleyma stund og stað. Við fórum í Móðurást í Kópavoginum sem er til dæmis eina verslunin á höfuðborgarsvæðinu sem hefur fyrir því að kaupa inn sérstakar "skriðbuxur" handa börnum (buxur með gúmmíi á hnjánum svo að börn renni síður þegar þau skríða). Við nýttum sömu ferð til að kíkja í Fjarðarkaup. Þar er alltaf skemmtilegt að versla. Matvörur eru í huggulegum básum, sem gerir þetta allt meira spennandi, eins og í útlöndum. Fjarðakaup flytur inn ýmsar vörur sem ekki fást annars staðar og úrvalið kemur því raunverulega á óvart. Það fæst til dæmis hjá þeim ekta Bugles (Bögglesið, gamla og góða) sem er aðeins til sem eftirlíking i öðrum matvörubúðum. Að lokum gerðum við okkur sérferð til besta framkallarans í bænum, Pixlar, sem ótvírætt afgreiðir bestu stafrænu prentunina í bænum (og getur afgreitt hlutina gegnum tölvupóst og afhent þér við mætingu). Eflaust eru fleiri skemmtilegar snattferðir í þessum dúr framundan áður en Vigdís byrjar að vinna í næstu viku.

Engin ummæli: