sunnudagur, október 22, 2006

Fréttnæmt: Vikuyfirlit

Stundum gefst mjög takmarkaður tími til að kíkja í tölvuna og lítið sem ekkert bloggað. Þannig var síðasta vika. Hún var samt merkileg á margan hátt. Ef ég stikla á stóru þá ber kannski hæst að Vigdís fór að vinna eftir barneignarfrí (hún hefur ekki unnið síðan í desember síðastliðnum). Hún tók kvöldvakt á mánudag og strax morgunvakt daginn eftir. Akkúrat þann dag fór Signý í skoðun og ég mætti því einn með hana, frekar illa sofinn eftir að hafa vaknað snemma og skutlað Vigdísi. Það var athyglisverð heimsókn (og þess virði að fjalla um sérstaklega í annarri færslu). Svo er frásagnarvert að í vikunni lét eigandin grafa upp garðinn fyrir framan húsið til að komast að frárennslisrörunum. Það flæddi nefnilega upp úr niðurfallinu á ný um síðustu helgi og eigandinn ákvað í þetta skiptið að bíða ekki boðanna, hringdi strax í gröfumann og sérfræðing til að hreinsa leiðslurnar. Skurðurinn hefur nú staðið opinn í nokkra daga því rörin verða ekki hreinsuð fyrr en eftir helgi. Það er því sérkennilegt um að litast í Granaskjólinu og ekki laust við að maður rifji upp gömlu góðu kastalasíkin þegar gengið er fram hjá holunni. Núna um helgina yfirgáfum við Vigdís svæðið og skildum Signýju eftir í höndum ömmu sinnar. Við dvöldum yfir nótt í góðu yfirlæti með Jóni Má og Margréti í bústað í Grímsnesi. Þar var nútíminn tekinn beinlínis úr sambandi. Ekkert sjónvarp, ekkert útvarp - nánast ekkert rafmagn (kertaljós) - og við spjölluðum í algjöru tímaleysi frameftir kvöldi (eftir vel heppnaða kvöldmáltíð þar sem humar lék aðalhlutverkið). Við Vigdís komum endurnærð heim í dag.

Engin ummæli: