föstudagur, október 06, 2006

Pæling: Eins konar atvinnuskipti

Lítilsháttar kreppa blasir við á heimilinu næsta mánuðinn. Ég fékk aðeins um 10 prósent af laununum útborgað. Ástæðan var sú að ég er kominn í feðraorlof, frá og með mánudeginum síðasta, og þar sem ég er á fyrirframgreiddum launum fæ ég lítið sem ekkert núna frá mínum venjulega launagreiðanda. Engin greiðsla frá Tryggingastofnun skilaði sér hins vegar (80 prósent af venjulegum daglaunum eiga að berast frá þeirri stofnun). Ég hélt að sú greiðsla myndi koma sjálfkrafa því ég tók tvær vikur út í byrjun ársins og tók fram á þeirri umsókn hvernig ég myndi haga skiptingu orlofsins síðar meir. En það þarf víst að ýta eitthvað við þeim. Þetta eru því nánast launalaus mánaðamót. Það er eins hjá Vigdísi, en með öðrum hætti. Barnsburðarleyfið hennar kláraðist þrettánda síðastliðinn (þá voru liðnir 9 mánuðir frá fæðingu Signýjar) og vegna handarbrotsins var hún í veikindaleyfi út mánuðinn (og hefði átt að fá það borgað frá launagreiðanda sínum). Eitthvað klúðraðist hins vegar á launaskrifstofunni hjá henni þannig að hún fékk ekki þann hálfa mánuð sem hún átti von á (en fékk hins vegar hálfa greiðslu frá Tryggingastofnun). Þetta þýðir bara að við þurfum að vera sparsöm þennan mánuðinn vitandi af tveimur feitum tékkum síðar meir þegar þetta verður leiðrétt.

Reyndar er þessi launahagræðing sem feðraorlofið felur í sér óþarflega fyrirhafnarmikil og einmitt líkleg til að valda svona misskilningi. Maður hefði haldið í fljótu bragði að þetta gengi því sem næst sjálfkrafa fyrir sig. Maður ætti ekki að þurfa að gera meira en að rétta upp hönd og segjast ætla í feðraorlof á tilteknum tíma og yfirmaður manns gengur frá pappírum og tryggir að maður fái sín 80 prósent þann mánuðinn í stað fullra launa. Slík umsýsla fer best í eins manns hendi. En svo er nú aldeilis ekki. Launagreiðandinn er ekki sá sami og því þarf að meðhöndla öll gögn eins og um atvinnuskipti sé að ræða (og það er á ábyrgð þess sem "skiptir um" vinnu). Tryggingastofnun þarf að fá skattkortið í hendur frá Reykjavíkurborg auk þess sem ég þarf að fylla út nákvæmt eyðublað og skila inn til þeirra. Þetta þurfti ég að gera í bæði skiptin, þegar ég tók út fyrstu tvær vikurnar í janúar og nú þegar ég klára restina af mánuðunum þremur. Það má því segja að ég sé á launum hjá Tryggingastofnun án þess að mæta nokkurs staðar í vinnu, þ.e.a.s. "heimavinnandi".

Engin ummæli: