Í gær giftu þau Bjartur og Jóhanna sig við hátíðlega athöfn. Vel valinn söngflokkur stóð á svölunum og söng brúðkaupsmarsinn við orgelspil (og þar naut ég þess að vera innanborðs). Marsinn er sjaldnast sunginn nú til dags en það var þó sérlega viðeigandi og hátíðlegt því sönghefðin er í hávegum á heimili þeirra hjóna. Þau voru gefin saman í Hafnarfjarðarkirkju og buðu svo til veisluhalds í Safamýrinni í veislusal gamla fótboltafélagsins míns. Mikill fjöldi var þar staddur til að fagna með þeim. Fæsta þekkti maður svo sem en inn á milli kannaðist ég við gamla söngfélaga og einn og einn tónlistarmann sem kunnur er á opinberum vettvangi. Eins og við mátti búast var mikið af skemmtiatriðum og söng. Bæði sprellandi og spriklandi Smaladrengum (óborganlega fyndnir) og innilega næmum og fallegum söng Hallveigar. Eftirminnilegust fannst mér þó persónulegri atriðin, þar sem systkini Bjarts og fjölskylda þeirra sungu gömul lög eftir hann sem hann samdi sjálfur sem lítill krakki, að þeirra sögn. Þau voru skemmtilega súrrealísk og einlæg. Einnig stóð Bjartur sig frábærlega þegar hann settist við píanóið sjálfur, við undirleik strengja, og söng ástaróð til Jóhönnu. Ekki man ég hvað lagið heitir, en hann samdi það líka sjálfur, nema hvað, einhver annar var víst á undan honum að semja það :-). Haldin var vísubotnasamkeppni eftir að öllum söngatriðum sleppti og fékk sigurliðið forgang að kaffihlaðborðinu.
Er ég horfi út í geim
oft hann virðist svartur
Einhver sneri út úr keppninni og skipaði þar með borði sínu í aftasta sæti í röðinni:
Þetta er nú heldur "leim"
lakur fyrripartur
En sigurvegarinn var föðursystir Jóhönnu sem samdi þenna snilldarbotn, sem var sérstaklega vel við hæfi.
Um lágnættið þau leiðast heim
litla frænka og Bjartur
Þau héldu einmitt út í nóttina og dvöldu fyrir utan borgarmörkin í kyrrðinni yfir nóttina. Við óskum þeim aftur innilega til hamingju og hlökkum mikið til að hitta þau á ný.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli