Ég fór í gær ásamt Villa bróður á sinfóníutónleika. Þeir voru að frumflytja stórvirki eftir Jón Leifs, Eddu I, sem fjallar um sköpun heimsins samkvæmt norrænni goðatrú. Þetta er fyrsta Edda af þremur sem Jón samdi á lífsleiðinni (af áætluðum fjórum Eddum). Hann dó frá þeirri þriðju. Mér skilst að hinar tvær hafi verið fluttar áður en þessi, fyrsti hluti, hafi vaxið flytjendum svo mjög í augum að enginn hafi treyst sér hingað til að flytja hana (og nú eru tæp 40 ár síðan höfundurinn dó). Það þurfti margra vikna strembið æfingaferli fyrir þrautþjálfaða hljómsveitarmeðlimi og kór (Mótettukórinn) til að koma verkinu á framfæri og talað var um að nokkrum dögum fyrir flutning vissi enginn enn hvernig þetta myndi hljóma, svo strembið var æfingaferlið.
Tónleikarnir voru verulega magnaðir og ég fékk gæsahúð í það minnst þrígang í fyrsta og öðrum kafla (af tólf). Síðan fór ég að verða samdauna þessum tónaheimi og fannst síendurteknir hápunktar og hljóðeffektar hreyfa minna við mér. Jón Leifs ræðst á skynfærin og maður hálfpartinn kúplar sig frá eftir um tuttugu mínútna hlustun. Mér fannst verkið skorta í fljótu bragði fjölbreytni og hafði jafnvel á tilfinningunni á tímabili eins og því miðaði ekkert. Þetta var eins og að vera staddur inni í eldfjalli og sjá hraunið vella og logatungurnar steypast yfir mann án þess að neitt sérstakt væri í aðsigi. Það var ekki eins og hraunið væri um það bil að fara að umlykja mann eða neitt slíkt. Engin spenna - bara stöðug dramatík. Að flutningi loknum endurspeglaði salurinn þennan skort á framvindu og spennu í tónlistinni. Fólk var ekki beinlínis æst í að rjúka á fætur. Það hafði ekki fengið almennilega útrás eða svölun, eins og menn væru meira uppgefnir en hrifnir og klappaði meira af virðingu og þakklæti en geðshræringu.
Það var samt ástæða til að dáðst að flutningi verksins. Kórinn fannst mér syngja sérlega virkilega vel og hann rann á mjög sannfærandi hátt saman við sprengingarnar og lætin í hljómsveitinni. Tónlistin var því mjög áhrifamikil á köflum og það voru fjölmargir staðir sem ég vildi gjarnan hlusta á aftur og gefa betri gaum. Það verður vonandi hægt fljótlega enda stendur til að taka verkið upp og gefa út á vegum BIS útgáfunnar. Kannski fattar maður verkið betur í annarri atrennu.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli