Á leiðinni austur slepptum við því að fylla á tankinn enda föstudagsörtröð nærri Atlantsolíustöðvunum. Bensínið dugði yfir heiðina og eitthvað meira, en varla til baka. Við mundum hins vegar bæði eftir bensínstöð á Þingvöllum og við ornuðum okkur við þá tilhugsun á leiðinni austur. Sú minning reyndist hins vegar úrelt. Það var engin bensínstöð við umferðamiðstöðina lengur (þar var hún fyrir fjórtán árum) og hina stöðina (sem Vigdís hafði munað eftir við Valhöll) var einnig búið að fjarlægja. Á leiðinni til baka, í hitamollu, var brýnt að redda sér með einhverjum hætti því ekki gátum við gerst strandaglópar á milli Mosó og Þingvalla með þriggja mánaða barn í bílnum.
Nú voru góð ráð dýr. Við hringdum í hina og þessa í þeirri von um að vinir eða skyldmenni væru í grenndinni og nenntu að keyra hingað með bensín í brúsa og snæða með okkur kvöldverð í staðinn á Valhöll. Við náðum hins vegar ekki í neinn. Þá mundi ég eftir landvörðunum á Þingvöllum. Þeir eru staðsettir í umferðarmiðstöðinni og veita þar upplýsingar um þjóðgarðinn. Þeirra hlutverk er einnig að aðstoða ferðamenn í þengingum. Þar sem reikna má með því að þessi vandi skjóti upp kollinum reglulega hlytu þeir einfaldlega að hafa einhver ráð.
Ég var strax spurður að því hvort tankurinn væri "alveg tómur". Næsta bensínstöð var á Laugavatni eða Mosfellsbæ og þeir mega helst ekki selja mér bensín nema í neyð (Þeir sögðu mér að þjóðgarðurinn væri hugsaður sem framtíðarvatnsból Reykvikinga og þess vegna mætti geyma bensín á staðnum). Ég féll hins vegar undir þessa neyðarskilgreiningu svo hann hringdi eitt símtal og fékk kollega sinn til að skutlast eitthvað á bak við. Þar geymdu þeir fimm lítra brúsa (væntanlega nokkur stykki) og seldu mér hann á þúsundkall. Reyndar er þetta dýrt bensín, ég sá það strax, tvöhundruð kall lítrinn en reddingin var góð (enda "góð ráð dýr") og ég var ánægður með snör viðbrögð fyrrum kollega minna á Þingvöllum. Þegar kom að þvi að borga kom hins vegar upp sérkennilega staða. Ég gat ekki borgað með korti því þetta er ekki hluti af opinberri þjónustu þjóðgarðsins og má ekki fara í gegnum bókhaldið (þetta er bara óformleg redding). Ég vissi að allur peningurinn í veskinu mínu var uppurinn. Þeir hefðu svo sem selt mér eitthvað ódýrt gegnum debetkortið og látið mig fá pening í skiptum fyrir hærri upphæð. Ég fann hins vegar við nánari leit danskan seðil sem ég hafði þvi sem næst gleymt. Danskan hundraðkall. Seðillinn var mun verðmætari en íslenskur þúsundkall svo þetta þótti nokkuð ásættanlegt. Það fór því þannig að ég keypti fimm lítrana á um það bil 1200 kall, eða 240 krónur lítrann, og var sérlega ánægður með málalyktir.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli