sunnudagur, júlí 01, 2007

Daglegt líf: Sumarbústaðarferð

Sumarbústaðarferðin er semsagt að baki. Við vildum ekki greina frá henni hér á blogginu fyrr en eftir á (maður veit aldrei hvenær óprúttnir sjá sér leik á borði). Við fórum í sama bústað og í fyrra (í Kiðjabergi í Grímsnesinu). Hann er í uppáhaldi hjá okkur þessi árin, bæði mjög nýtískulegur og huggulegur.

Við vorum fimm á staðnum, við fjögur úr Granaskjólinu og tengdó (sem var nauðsynleg okkur til halds og trausts og til að geta flutt allt dótið með okkur austur - enda fjögur sæti frátekin í bílnum okkar fyrirfram). Veðrið var alveg einstaklega gott, eins og ég greindi frá síðast, en því miður tókst okkur ekki að færa það okkur í nyt. Til að byrja með var ég slæmur af ofnæminu vegna þess að nýlagðar túnþökur kringum bústaðinn voru að skrælna í þurrkinum. Ég var líka með einhvern undarlegan streng úr mjóbaki og niður í annan fótinn og átti svolítið bágt með mig (ekki vanur svona löguðu). Við ályktuðum sem svo að þetti hlyti að vera afleiðing af ójöfnu álagi að undanförnu við það að gagna gólfin með Hugrúnu. Ef það væri málið fannst okkur lógískt að ég skyldi nú vappa um móana í kring og ganga þúfur út og suður. Eftir tvær kvöldstundir þar sem ég gekk á brattann upp á nærliggjandi hæðir fann ég hvernig verkurinn snarminnkaði. Ekki hefur spurst til hans síðan :-)

Um það bil þegar ég sá fram á að batna virtist Signý eitthvað slöpp. Hún varð raddlaus og fékk töluverðan hita. Þetta háði henni það sem eftir var ferðarinnar - reyndar svo mjög að við kíktum á vaktafandi lækni í bænum við heimkomu. Þar fengum við þá niðurstöðu að hún væri ekki búin að fá þetta slím í lungun (helsta áhyggjuefnið) og fengum "barkabólgu" sem sjúkdómsgreiningu. Það er víst að ganga. En veikindin settu sem sagt töluvert stórt strik í reikninginn og gerðu lítíð úr áformum okkar um að skreppa hingað og þangað á meðan við vorum fyrir austan. Hitinn bakaði sveitir í kring og við gátum lítið annað gert en halda okkur innandyra, eða skiptast á vaktinni á meðan hinir skruppu í pottinn eða sólbað.

Endurnærð komum við til baka, en samt aðeins til hálfs. Sveitin skartaði sínu fegursta og við áttum margar góðar stundir í góðra vina hópi þessa fáu daga.

Engin ummæli: