fimmtudagur, júlí 19, 2007

Daglegt lif: Veðursæld lokið

Loksins er byrjað að rigna eftir margra vikna þurrk. Við höfum þurft að vökva garðinn reglulega síðustu daga, sem er tímafrekt og gott að vera laus við (úðarar eru gjörsamlega uppseldir í bænum). Núna sjá skýin um þetta fyrir okkur.

Við Vigdís erum búin að njóta sólarinnar eftir að fjölskyldan steig upp úr veikindunum og getum því verið sátt við okkar hlut. Fyrst fórum við í pikk-nikk með bakkelsi úr bakaríinu. Og hvert fórum við? Jú, auðvitað út í garð. Hann stendur alltaf fyrir sínu - með skjóltjaldi, þægilegum garðstól, mjúku teppi og ljósleita garðhúsinu hennar Signýjar. Þar lágu þær Vigdís og Hugrún á meðan við Signý þurftum að skjótast burt (og komum meðal annars við í Tívolíinu við Smáralindina). Daginn eftir varð sund fyrir valinu. Þar lá ég á bakkanum og las kafla úr einni af mínum uppáhalds bókum (Veröld sem var, eftir Stefan Zweig). Auðvitað var sú för kórónuð með ís úr nágrenninu. Seinna um daginn fórum við svo í Fjölskyldugarðinn. Signý fór í sína fyrstu alvöru ferð þangað (ég lít fram hjá ferð sem við fórum eitt sinn þegar ókeypis var i garðinn og engin leið að komast að til að sjá neitt). Hún kannaðist nú við flest dýrin eftir samviskusamlegan bókalestur og vissi alveg hvað þau "segja" og svoleiðis en hún var samt engan vegin viðbúin tröllslegum hljóðunum. Hún hágrét um leið og hesturinn fnæsti upp við hana. Svínin máttu heldur ekki rýta, þetta er svo stórgerðarlegt allt saman. Engu að síður naut hún sín vel í garðinum og hafði gaman af dýrunum úr hæfilegri fjarlægð.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hæ takk fyrir að leyfa okkur að fylgjast með ...
Það er alltaf jafngaman að taka þátt í lífinu með ykkur og horfa á þær litlu frænkurnar vaxa og dafna og heyra Signýju litlu segja nafnið mitt ,það hljómar svo ljuft, og skemmtilega....
Mér finnst líka gaman að sjá hvað Signý hefur gaman að hálsmeninu og klukkunni minni,,,
hún verður algjör pjattrófa þegar hún stækkar....ég skal sjá til þess!!!!!

Bestu kveðjur..... Begga frænka