mánudagur, júlí 02, 2007

Upplifun: Á bílastæði náttúrunnar

Í síðasta pósti hefði ég vel getað minnst á lífríkið allt í kring um bústaðinn, svona til að undirstrika að maður þarf oftast ekki að leita langt til að upplifa eitthvað eftirminnilegt. Þannig er að kringum bústaðinn er mólendi, tiltölulega berangurslegt en þó mishæðótt og líflegt. Fyrir vikið þrífast þar alls kyns mófuglar (lóan, spói, jaðrakan, stelkur og hrossagaukur - þar sem þeir þrír fyrstnefndu voru mest áberandi). Einnig vandi komu sína á svæðið skógarþröstur sem söng sinn einkennissöng. Ekki þurfti að ganga meira lengra en tuttugu metra út fyrir lóðina áður en varnaðarsöngurinn allt í kring fór að tifa. Spóinn og lóan stilltu sér upp og gerðu sig áberandi, sveimuðu kringum mig ótt og títt (þetta er náttúrulega varptími og ég heljarinnar boðflenna). Lóan beitti klassísku herbragði sínu tili að tæla mig burt frá hreiðrinu og þóttist vera vængbrotin (og staulaðist þannig burt fra mér). Ég lét lokkast smástund en svo fann ég hana ekki lengur, staldraði við og hélt af stað í aðra átt. Þá sýndi lóan snilldartakta og veifaði mer með vængjunum þar sem hún sat. Ég gat ekki staðist mátið og verðlaunaði dugnaðinn i Lóunni með þvi að elta hana örlítið lengra.

Ekki var nauðsynlegt að fara út úr húsi til að upplifa dramatík náttúrunnar. Rétt þegar ró var að færast yfir húsið seint um kvöld, heyrðum við óvenju aðkallandi fuglaklið. Það var mikið á seyði úti í móa beint fyrir framan stofugluggann. Birtist þá ekki refur, rauðleitur og með dökkgráa rófu, og læðupokast yfir bílastæðið og inn í varplandið. Ekkert okkar átti nú von á þessu og fylgdumst við því gaumgæfilega með. Maður gat alltaf séð hvar rebbi var niðurkominn á því hvernig fuglarnir vöppuðu í kringum hann, í passlegri fjarlægð. Nú var hann væntanlega í eggjaleit og skeytti engu um aðfarir fuglanna. Við gátum fylgst með honum alllanga stund þar til hann hvarf bak við næsta leiti. Þegar allt var fallið í ljúfa löð á ný sá ég hvar spói hélt sig upp á róluþverbita. Spóinn er stór fugl. Flott að sjá hann híma þar, öruggan, eins drungalegur og stæðilegur og krákurnar hans Hitchcock.

Ekki lét náttúran þar við sitja. Kvöldið eftir birtist skyndilega rjúpa á áðurgreindu bílastæði og byrjaði að dansa hringdans. "Ja, hérna", hugsuðum við með okkur, "bara sýning á planinu kvöld eftir kvöld!". Hamagangurinn í rjúpunni var slíkur að engu líkara en fuglinn væri að búa sig undir stríð. Líklega var þar tilhugalífi um að kenna en "hinn" fuglinn sáum við þó ekki. Þessi sami fugl (gerum við ráð fyrir) kom aftur kvöldið eftir og tók þar annan tilkomuminn hringdans áður en hann hvarf sjónum okkar fyrir fullt og allt.

Þetta gerðist allt fyrstu dagana í bústaðnum. Ef til vill var meira atgangur af svipuðu tagi á bílastæðinu næstu daga á eftir. Ef svo er urðum við að minnsta kosti ekki vör við það, enda athyglin farin að beinast að Signýju (sem glímdi við hvimleiða barkabólgu, eins og ég greindi frá síðast).

Engin ummæli: