Mér er sönn ánægja að eiga enn eftir að greina frá tónleikum Dúndurfrétta og sinfóníunnar (frá því á föstudaginn var). Við Villi fórum saman á tónleikana. Hann er gamalgróinn Pink Floyd aðdáandi og þekkir "Vegginn" út og inn, en hafði hins vegar aldrei heyrt Dúndurfréttir spila. Ég gerði mitt besta í að halda aftur af hástemmdum lýsingarorðum mínum í garð Dúndurfrétta fyrir tónleika, enda mikill aðdáandi þeirra. Ég sá þá flytja þetta verk í Austurbæ í hitteðfyrra og var frá mér numinn af hrifningu. Hver sæmilega skynsamur maður myndi ekki taka mark á lýsingum mínum hvort eð er, ef ég leyfi mér að komast á flug, en í stuttu máli má segja að það er erfitt að ímynda sér tónlistina betur flutta, jafnvel þó Pink Floyd sjálf væri á sviðinu. Í þetta skiptið stóð til að flytja verkið sem sagt með sinfóníunni og því sérstaklega spennandi að sjá hvernig þetta tvennt blandast saman.
Eftirvæntingin var mikil og salurinn var þétt skipaður virðulegum borgurum og settlegum rokkurum. Sinfónían byrjaði mildilega með upphafsstefi verksins sem er þjóðlegur ómur frá liðinni tíð, mjúkur hornablástur, sérlega fallega flutt af sinfóníunni, en svo mjúklega að enn heyrðist vel í áhorfendakliðnum (enn voru menn að koma sér fyrir í sætum). Þegar ég hugsaði til þess hvað þetta yrði truflandi til lengdar kvað við sprenging - Dúndurfréttir ruddust inn með "In the Flesh" og gjörsamlega fyllti höllina af þéttum rokkhljóm (og vel það, - skyndilega virkaði hljómbotninn í höllinn mjög lítill). Andstæðurnar þarna á milli voru miklar og augljóst frá þessum upphafsmínútum að áhorfendur skyldu teknir kverkataki. Eftir það var ekkert tvínónað í flutningnum, hvert snilldarlagið á fætur öðru og gaman að sjá hvernig forsöngurinn rennur á milli þriggja liðsmanna Dúndurfrétta (einn með djúpa baritónrödd, annar með hljómmikla tenórrödd og sá þriðji með mjóa og nístandi rödd sem liggur enn hærra). Sinfónían kom einnig inn í þetta með fjölbreytilegum hætti og greinilega mikið lagt í útsetningarnar (sem voru sérstaklega unnar af utanaðkomandi aðila). Hlutverk hennar var ekki bara að fylla inn í hljóminn og elta Dúndurfréttir heldur spannaði samvinnan skalann á milli þess að sinfónían væri með laglínuna alfarið yfir í það að hún sæti til hliðar og fylgdist með Dúndurfréttum "rokka feitt" (eins og unglingarnir myndu orða það), Oftar en ekki var mikið jafnræði milli sveitanna og gaman að heyra hversu mikill metnaður lá í sinfónísku útsetningunum. Stundum var bætt við óvæntum taktslögum, hljóðfærum eða heilu köflunum. Aldrei fékk ég á tilfinninguna að útsetjarinn færi í skógarferð með inngripi sínu og fannst þetta útsett af bæði innsæi og djörfung. Í einu laginu kom barnakór meira að segja við sögu, en það var reyndar nokkuð fyrirsjáanlegt (ef menn muna enn eftir smáskífulagi plötunnar). Í heildina litið þá var útfærslan á tónlistinni ákaflega spennandi og það er mikið tilhlökkunarefni að fá að heyra þetta aftur þegar það kemur út um jólin (sem ég reikna með að verði gert eins og með aðra sambærilega tónleika sinfóníunnar undanfarin ár).
Þar sem ég hef séð Dúndurfréttir flytja verkið áður fannst mér athyglisvert að bera þennan flutning saman við þeirra eigin flutning. Þá eru þeir fáliðaðir en þekkja verkið engu að síður það vel að manni finnst ekkert vanta upp á flutninginn. Mér fannst merkilegt til þess að hugsa að þeir skuli yfir höfuð hafa gert "Veggnum" full skil einir síns liðs þegar maður horfði upp á hersinguna uppi á sviði Laugardagshallar (líklega hátt í hundrað manns). Samanburðurinn var Dúndurfréttum að mörgu leyti hliðhollur, þ.e.a.s. þeirra eigin flutningur stóðst samanburðinn fyllilega. Munurinn var aðallega sá að þau lög sem höfðu hljómað best hjá þeim áður ögn síður út í þetta skiptið. Þeir voru ekki eins frjálslegir í flutningi og slepptu sér kannski ekki eins oft auk þess sem ákaflega vandaður samhljómur raddannar skilaði sér ekki eins vel gegnum hljóðmúr sinfóníunnar. Á móti kemur að í þessum nýja flutningi stálu önnur lög senunni í staðinn. Útsetningar sinfóníunnar voru algjör snilld á köflum og samspilið á milli sveitanna hreint afbragð í mörgum laganna. Best fannst mér lögin "Comfortably Numb" og "Run Like Hell" koma út í þessu tilliti enda fóru þau gegnum talsverða yfirhalningu og urðu svipmeiri fyrir vikið. Andstæður hljómsveitanna komu vel fram í þessum lögum auk þess sem Dúndurfréttir fengu talsvert svigrúm til að spinna galið rokk. Eftir fyrra lagið var geðshræring áhorfenda svo mikil að það þurfti að gera hlé á tónleikunum. Flytjendur virtu stúkuna í dágóða stund þar sem hún reis á fætur með dynjandi lófaklappi, og samt enn var nóg eftir af tónleikunum.
Þetta var magnað. Þetta var magnað. Magnað, magnað, magnað.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli