sunnudagur, nóvember 27, 2005

Upplifun: Hugarflæði í jólakyrrð

Við Vigdís tókum okkur til í dag og settum upp jóladót ásamt því að þrífa lítillega hér og þar. Í bjarmanum af jólaljósunum lögðum við okkur að þessu loknu í sitt hvoru stofuhorninu í um hálftíma. Þar sem ég lá í kyrrðinni fann ég hvernig slökunin hleypti af stað sjálfvirku hugarflæði. Það hófst með fjörfiski í öðrum upphandleggnum. Frá honum leiddi ég hugann að því hvað það er nú óþægilegt þegar hjartað tekur aukaslag, sem er ekki svo ólíkt fjörfiski. Ef maður fengi það reglulega má vera að maður yrði svolítið smeykur. Þeir sem fá hjartaslag (eða verða fyrir öðrum sambærilegum áföllum) fá víst allt aðra sýn á lífið eftir á. Þar með var ég farinn að hugsa um Rúnar Júlíusson sem hefur gert svolítið út á upplifun sína um árið þegar hann fékk hjartaáfall. Hann hefur meira að segja gefið út plötu undir heitinu "Með stuð í hjarta". Skyldi hann passa upp á heilsu sína í dag? Vafalaust hafa hann og félagar hans í bransanum reynt ýmislegt. Með þá hugsun leiddi ég hugann að Gunnari Þórðarsyni og hversu gamall hann virkar á mann. En hann hefur nú alltaf verið svona. Ég man þegar hann birtist á plötuumslögum fyrir 25 árum síðan. Jafnvel þá virkaði hann alltaf með eldri mönnum á bak við skeggið sitt, enda alltaf "komponistinn" í hópnum. Þar með var ég farinn að hugsa um hann sem lagasmið. Hann á að baki óhemju fjölda af lagasmíðum sem áhugavert væri að taka saman skilmerkilega á einum stað. Hann er búinn að koma nánast alls staðar við sögu í íslenskri dægurlagasögu. Hann er nú eiginlega sér á báti hvað þetta varðar, eða hvað? Hversu víða hefur til dæmis Magnús Eiríksson komið við eiginlega? Væri nóg að taka saman lista yfir Mannakornsplöturnar eða er fingraför hans að finna mun víðar en það? Hann hefur til að mynda unnið mikið með K.K. og samið með honum ýmis lög. Mér varð hugsað til þar með að þrátt fyrir það að ég kunni að mestu leyti vel að meta þá tvo sem tónlistarmenn hef ég engan veginn verið sáttur við lög eins og "Óbyggðirnar kalla" og "Vegbúann". Að mínu mati ýta þau undir ákveðna ræfladýrkun. Ég hef séð fólk sameinast ógæfumönnum í anda á tónleikum þar sem það heldur á bjórglasi sínu, kyrjandi þessa texta ámátlega. Það fer óneitanlega fyrir brjóstið á mér. Ég sá í hendi mér samtímis hvernig hugtakið "ræfladýrkun" gæti stuðað fólk. Skyndilega finnst mér ég standa á snakki við K.K. og útskýri afstöðu mína og hann svarar mér í hálfgerðum skammartón. Þá átta ég mig á því að þessi tilhugsun endurspeglar sams konar kringumstæður sem ég raunverulega lenti eitt sinn í gagnvart vinnufélaga mínum í Vættaborgum. Þar mátaði ég við mig þá kaldlyndu skoðun að vímuefnaneysla unglinga ætti í langflestum tilvikum rætur að rekja til fjölskylduaðstæðna. Hugmyndina orðaði ég á einhvern hátt of afgerandi og fékk fyrir það hastarlegar ákúrur frá vinnufélaga mínum. Þau viðbrögð áttu rætur að rekja til þess að viðkomandi átti son sem var í talsverðum fíkniefnavanda sem virtist, að eigin mati, stafa af öðru en vanrækslu fjölskyldunnar. Ég þurfti að éta orðin ofan í mig. En núna þar sem ég velti þessu fyrir mér í jólabjarmanum fór ég að skoða þessa hugsun á nýjan leik og skoða markvisst þá þætti sem verka saman og hafa áhrif á líferni ungs fólks. Eftir talsverðar vangaveltur (sem ég ætla að birta í næstu færslu) rankaði Vigdís við sér úr slökunarástandi sínu og við reistum okkur við á nýjan leik, endurnýjuð í hálfrökkrinu. Ég var hins vegar fyrst um sinn mjög meðvitaður um þetta sjálfráða hugarflæði sem átti að baki. Ég stóð á fætur með skipulagða pælingu um vímuefnavanda ungs fólks sem einhvern veginn þróaðist út frá fjörfiski í upphandleggnum.

Engin ummæli: