Nú er akkúrat vika liðin síðan yngri dóttir okkar fæddist. Við fórum heim daginn eftir fæðingu og höfum síðan þá notið góðs af daglegum heimsóknum ljósmóður okkar. Hún fylgist með því gaumgæfilega hvernig sú litla dafnar og gefur okkur góð ráð í leiðinni varðandi ýmislegt þessa fyrstu daga. Að sjálfsögðu þiggur hún kaffisopa í leiðinni og er hin viðkunnanlegasta. Á morgun kemur hún í síðasta skipti og teljumst við þar með formlega útskrifuð af fæðingardeildinni. Í dag var reyndar öðruvísi dagur. Í stað þess að fá ljósmóðurina í heimsókn gerðum við okkur ferð upp á Barnaspítala Hringsins þar sem dóttir okkar fór ásamt fjölda annarra viku gamalla barna í skoðun. Þar reyndist allt með felldu. Reyndar var þessi heimsókn svo vel heppnuð að við erum staðráðin í að koma aftur fljótlega! Ekki er ég að bulla, því kaffiterían á Barnaspítala Hringsins er með eindæmum góð (heimasmurðar samlokur og ótrúlega vandaðir salatdiskar). Við eigum eftir að kíkja þangað aftur einhvern daginn.
Vikan hefur annars verið erilsöm eftir heimkomu, eins og búast mátti við. Sú litla (eða öllu heldur sú "litla-litla" þar sem Signý er "stóra-litla") hefur verið býsna vær, nema þegar við hin erum að festa svefn. Þá á hún það til að orga af lífs og sálar kröftum. Það er sko enginn hljóðkútur á henni þegar hún byrjar. Röddin er ekki eins fíngerð, pen og björt og hjá Signýju heldur spannar hún meira skalann þannig að hún urgar á köflum. Ekki það að hún sé yfirleitt hávær. Hún er bara meira vakandi á þessum tíma sólarhringsins eins og gjarnt er með nýbura og við þetta bætist einhver magakveisa (sem sumir segja að sé bara "hreinsun" eftir fæðinguna) sem veldur henni vanlíðan. Augljóslega er hún með mikið skap og veit hvað hún vill. Hún gerir til að mynda skýran greinarmun á því að sofa í vöggunni eða í rúminu hjá okkur, jafnvel eftir að hún virðist steinsofnuð (og er yfirleitt fljót að rumska þegar hún er látin þangað á ný). Yfirleitt sefur hún vel seinni part nætur, svona um það bil hálfa nóttina. Vandinn er hins vegar sá að Signý sefur þetta allt af sér af stóískri ró. Hún átti bara erfitt með sig fyrstu nóttina og síðan ekki söguna meir. Á hverjum degi vaknar því útsofin á sínum reglubundna tíma klukkan átta að morgni. Þá stekk ég á fætur dauðuppgefinn og er eins og draugur þangað til við leggjum okkur aftur upp úr hádegi. Spænski miðdegislúrinn er því strax orðinn að kjölfestunni í rútínunni hjá okkar litlu fjölskyldu.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli