Óskaplega er maður upptekinn þessa dagana. Hingað til hefur maður að minnsta kosti getað treyst á að fá pásur inn á milli eftir því sem við skiptumst á að sinna Signýju og upp úr klukkan níu hefur verið fyrirsjáanlega róleg stund eftir að Signý sofnaði. Nú er því ekki að skipta hins vegar. Vigdís er nánast alveg samtengd litlu nýfæddu dóttur okkar og þarf að leggja sig hvenær sem hún lognast út af. Ég er hins vegar öllum stundum með Signýju - og hún er mun fyrirferðarmeiri en áður. Það er helst í kringum hádegið, þegar hún leggur sig, að manni gefst svigrúm til að sinna einhverju frjálslegu. Það er þó skammgóður vermir því yfirleitt eru fyrirliggjandi húsverk líka í biðstöðu eftir þvi að Signý sofni. Á kvöldin þegar hún er svo loks sofnuð gerist það yfirleitt að litla systir fer þá að kvarta undan magaverkjum. Hún er sem sagt ekki fyllilega búin að ná sér, ólíkt því sem ég gaf í skyn síðast, og heldur okkur jafnan við efnið rétt fyrir miðnætti og fram til tvö eða þrjú, stundum lengur. Sem betur fer sefur hún hins vegar vel upp úr þvi þannig að nætursvefninn hjá okkur er yfirleitt fjórir til fimm tímar, þar til Signý vaknar (við heitan hafragraut).
Til að halda dampi í þessari þéttsetnu fjölskyldurútinu er bráðnauðsynlegt að brjóta daginn upp og fara út úr húsi reglulega. Leikvellirnir allt í kring eru freistandi enda fullt af dýralífi á svæðinu (kisur á alla kanta, nokkrir hundar af ýmsum stærðum og fullt af fuglum). Eftir þessu tekur Signý og er full af áhuga á dýrunum. Hún ískrar af gleði í hvert sinn sem köttur nálgast hana en gerir sér ekki grein fyrir því að það er samhengi á milli viðbragða hennar og þess að kettirnir hrökklast snarlega burtu. Hundunum fær hún hins vegar að klappa. Þeir eru ekki eins hvekktar verur og mun félagslyndari að jafnaði. Þessi hringur sem við göngum er hins vegar fábreyttur til lengdar. Þá kemur bíltúrinn að góðum notum. Við kíkjum stundum á fuglalífið á Gróttu og hendum í fuglana brauði ("sem hjálflausum fellur það þungt" eins og Valgeir Guðjóns sagði um árið). Einnig er nærliggjandi bókasafn, í miðbænum, afbragðs skemmtun. Við uppgötvuðum nýlega að þar innandyra er vel úthugsuð barnadeild með afmörkuðum kima, barnvænum húsgögnum og að sjálfsögðu barnabókum. Þangað sækja jafnaldrar Signýjar og eiga yfirleitt uppbyggileg samskipti. Ekki skemmir fyrir að ég hef sjálfur sérstakt dálæti á bókasöfnum og á oftast mín eigin erindi þangað öðru hvoru.
Við Vigdís erum algjörlega með sitt hvora rútínuna eins og tvö tiltölulega ólík teymi með ólíkar þarfir: Ég er á fullu að hjálpa Signýju við að rannsaka heiminn á meðan Vigdís hlúir að þeirri litlu og lagar sig að hennar rútínu. Að mínu mati er full þörf á tveimur fullorðnum í fullri "heimavinnu" til að sinna tveimur svona ungum. Það er eiginlega ótrúlegt til þess að hugsa að móðirin ein átti að sinna þessu öllu, og heimilinu, allt fram til okkar daga.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Hæ mér finnst frábært hvað þið eruð samhent og dugleg að vinna í þessu verkefni....
Margur hefur kvartað en ekki notið tímans sem "by the way" kemur ekki aftur.....
Sjáumst sem fyrst aftur...
kv.Begga frænka.....
Skrifa ummæli