mánudagur, júní 18, 2007

Fréttnæmt: Þreföld skoðun

Í dag fór fjölskyldan í þrefalda læknisskoðun, þ.e. allir nema ég. Allt var þetta hefðbundið rútínutékk en það er engu að síður gaman að bera saman niðurstöður mælinga hjá systrunum. Hugrún fór í sex vikna skoðun og var vigtuð (4.9 kg) og lengdarmæld (60 sm). Einnig kom fram að hún fylgir vel eftir með augunum og heldur höfði furðu vel miðað við aldur. Signý fór hins vegar í 18 mánaða skoðun, sem innihélt sprautu auk sömu mælinga og hjá Hugrúnu (hún er nú orðin 10 kg og 80 sm). Svo var merkt við hana lauslega í þroskamati, án frekari eftirgrennslanar, enda vissi hjúkkan að Signý var vel á vegi stödd. Hakað var meðal annars við það atriði að Signý gæti staflað upp kubbum, að minnsta kosti tveimur, og ég var minnugur þess þegar hún raðaði upp átta stykkjum fyrir þó nokkru síðan.

Tölurnar sem komu fram hér að ofan eru að mörgu leyti athyglisverðar. Þær eru skemmtilega skýrar. Hugrún er um það bil helmingi léttari en Signý (4.9 kg og 10 kg) og er búin að ná þremur fjórðu af lengd hennar (60 sm og 80 sm). Við skoðuðum tölur fyrir Signýju og sáum að hún var fimm kílógrömm þegar hún var þriggja mánaða. Þessu marki hefur Hugrún nú þegar náð sex vikna gömul. Áður en fólki bregður við þetta misræmi verð ég að minna á að Hugrún fæddist "eldri". Hún naut lengri meðgöngutíma og munaði þar fjórum vikum og fimm dögum. Þar að auki hefur hún allt frá fæðingu verið mun svengri en Signý og verið mun kröfuharðari á brjóstið. Þessi sex vikna munur á líkamsþyngd er því mjög eðlilegur eftir allt.

Til gamans fórum við Vigdís að gramsa í gömlum myndum af Signýju frá þeim tíma er hún var fimm kílógrömm að þyngd og klæddist þeim fötum sem Hugrún klæðist nú. Hér er árangurinn og samanburðurinn, systurnar Signý og Hugrún (í sömu peysunni):


Hugrún (fimm vikna) júní 2007

Signý (þriggja mánaða) mars 2006


Fleiri myndir eru á myndasíðunni.

Engin ummæli: