Á föstudaginn var átti Signý að byrja í leikskólanum, með klukkutíma heimsókn (síðan verður næsta vika stigvaxandi aðlögun). Það vildi hins vegar svo óheppilega og undarlega til að hún vaknaði veik sinn fyrsta skóladag. Hún gubbaði snemma morguns og var með vaxandi hita fram eftir degi. Það sem er undarlegt við þetta er að Signý hefur nánast aldrei orðið veik (nema eftir sprautur og svoleiðis, og þá stutt í einu). Hún hafði aldrei kastað upp fram að þessu. Tímasetningin var því frekar merkileg tilviljun. Þegar við hringdum í leikskólan og tilkynntum um forföll Signýjar spurði leikskólastjórinn í gamansömum tón hvort hún væri ekki bara með "skólakvíða". Því er að sjálfsögðu ekki að skipta enda höfum við Vigdís hlakkað til fyrir hennar hönd og ef hún hefur tekið eitthvað inn á sig þá er það frekar jákvætt.
Það er helst af Signýju að frétta að hún virðist vera búin að ná sér að fullu. Í gær, laugardag, var hún hitalaus en hálf slöpp eftir föstudaginn. Í dag er hún að fullu orðin lík sjálfri sér. Við höldum því ótrauð áfram á morgun að kynna okkur lífið á leikskólanum.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Gott að heyra að Signýju batnaði fljótt. Gangi ykkur vel á leikskólanum og góða skemmtun :-)
Skrifa ummæli