laugardagur, júní 09, 2007

Þroskaferli: Annar leikskóladagur

Ég tók mig taki og mætti hálf lasinn í leikskólann með Signýju á föstudaginn. Hún var orðin alveg hress (en ég átti eftir að versna um kvöldið og ná mér um sólarhring síðar, þ.e.a.s. u.þ.b. núna). Þetta gekk alveg eins og í sögu. Dagur tvö í aðlögun gengur sem sagt þannig fyrir sig að leikskólabarnið staldrar við í tvo tíma og þar af bregður foreldrið sér frá í um það bil hálftíma. Signý kom sér til að byrja með fljótt fyrir og lék sér varfærnislega við krakkana. Hún var óhrædd við að skoða sig um og lét það ekkert á sig fá þó að sumir krakkanna væru stöðugt grátandi. Ég settist um tíma við borð og fiktaði eitthvað í púsli sem ég fann og nokkrir eldri krakkanna (um það bil tveggja og hálfs) gáfu sig að mér og skoðuðu með mér. Signý var ekkert allt of pössunarsöm á mig og lét það alveg fram hjá sér fara. Hún dundaði sér bara sjálf svo lengi sem ég brosti til hennar reglulega. Síðan kom að tímabundnu brotthvarfi mínu. Þá var mér ráðlagt að kveðja hana formlega áður en ég færi. Þá leist henni ekki betur en svo á blikuna að hún vildi stökkva upp í fangið á mér. Auðvitað tók ég hana að mér í smástund. Það leit hún á sem staðfestingu þess að hún væri að fara með mér og tók upp á því undir eins að dreifa fingurkossum yfir salinn - kampakát með velheppnaðan dag. Ég leiðrétti þetta ofur varlega og sagði henni að hún yrði hér, en ég kæmi aftur. Leikskólakennararnir voru fljótir með sitt úrræði og sáu að í þessari stöðu væri vænlegast að dreifa athyglinni. Þeir gripu í risastóran saumaðan orm og sýndu henni. Það dugði greinilega og ég læddi mér út vandræðalaust. Þegar ég kom aftur, þegjandi og hljóðalaust, var því strax varpað á mig að "þetta barn er búið að vera eins og engill". Ég sá hana í einu horninu þar sem hún lék sér af yfirvegun og ég varpaði á hana kveðju og hún svaraði glaðlega, en hélt svo áfram að leika sér.

Mér varð hugsað til þeirra tilvika þegar við Vigdís höfum verið í burtu frá Signýju í einhvern tíma, eins og þegar við fórum til Danmerkur í fyrrasumar, eða á Hóteldvölina í Hvalfirði fyrir nokkrum mánuðum. Þá kom nokkuð berlega í ljós að hún er ekki haldin aðskilnaðarkvíða. Það skipti minna máli þá (enda var hún heima hjá sér í höndunum á okkar nánustu) en mikið óskaplega er gott að horfa upp á það núna.

Engin ummæli: