fimmtudagur, júlí 08, 2010

Pæling: Ár undantekninga (eða straumhvarfa?)

Þetta ár er eiginlega að verða með ólíkindum. Ekki nóg með að þessi straumhvörf verða í fótboltanum (og að mótið skuli vera haldið í Afríku yfir höfuð og það með fádæma góðum árangri) heldur eru aðrir atburðir í samfélaginu algjörlega úr takti við stefnu undanfarinna áratuga. Nú er ég til dæmis að tala um Jón Gnarr sem borgarstjóra. Barack Obama er að auki á sínu fyrsta ári sem svartur forseti Bandaríkjanna (reyndar kjörinn í fyrra) og Vinstri Grænir eru við völd - svo að segja. Það að hvorki Framsókn né Sjálfstæðisflokkurinn sé við völd er út af fyrir sig magnað. Hið pólitíska landslag, heima og erlendis, er einhvern veginn allt annað en fyrir bara tveim árum.... Svo lætur náttúran á sér kræla að auki með eftirminnilegri hætti en maður er vanur. Eyjafjallajökull sýnir á sér sparihliðina með túristagosi og grettir sig síðan og hristir með óhemjugangi stuttu seinna, nokkuð sem setur allt úr skorðum á norðurhjara veraldar. En þó er það ekkert í líkingu við hamfarirnar á Haíti, sem eru einhverjar mestu náttúruhamfarir sem dunið hafa á einni þjóð í mannkynssögunni. Eigum við von á einhverju meira? Árið er bara rétt liðlega hálfnað og er þegar orðið mun eftirminnilegra en nokkurt annað ár síðustu tveggja áratuga.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

ó já ótrúlegt ár og næstum helmingurinn eftir
Kv. Begga