föstudagur, apríl 28, 2006

Tónleikar: The Wedding Present

Ég fór á geggjaða tónleika í gærkvöldi. Hljómsveitin the Wedding Present kom loksins til landsins, tuttugu árum eftir að hún var stofnuð. Þetta er tónlist sem ég hélt upp á á "sokkabandsárum" mínum (þ.e. áhugi minn á rokktónlist var að byrja - viðhorfin voru á fullu að gerjast og ég galopinn og móttækilegur). Á þessum tíma kynntist maður fullt af frábærum böndum sem enn þann dag í dag teljast flest til "cult" sveita (sem aðeins hinir fáu útvöldu hafa meðtekið, ef svo mætti að orði komast). Mér nægir að nefna Pixies, Sonic Youth, the Fall, Felt, Triffids, My Bloody Valentine, A House, Camper Van Beethoven, Thin White Rope, Chumbawamba (löngu áður en þeir slógu í gegn með "Tubthumping") ásamt the Wedding Present. Þær tvær fyrstnefndu hafa vaxið talsvert í metorðum og frama síðan fyrir tuttugu árum. Goðsagnakennd nöfn þeirra hafa borist mann fram af manni eins og viska aldanna. Þær komu báðar nýlega til landsins og héldu báðar tvenna tónleika. Pixies fyllti Kaplakrikann tvívegis en Sonic Youth spilaði á þéttskipaðri Nösu í tvígang. The Wedding Present er neðar í metorðastiga almennings en þessar tvær sveitir. Satt að segja þá þekkja fáir nafn sveitarinnar. Tónleikarnir voru því auglýstir mjög takmarkað. Sumir tónleikagesta komu reyndar af fjöllum þegar þeir ráku augun í nafn sveitarinar í Mogganum tveimur dögum fyrir tónleika, svo lítið var fjallað um þá. Sveitin hélt sig því af raunsæi við afar lítinn stað, Grand Rokk, þar sem rétt rúmlega tvöhundruð manns geta aðhafst með góðum vilja uppi á efri hæðinni. Þetta var eitt af því sem gerði tónleikana nánari og þéttari. Maður stóð uppi við sviðið og hefði alveg getað tekið í spaðann á söngvaranum Gedge. En það var enginn tími til þess. Hann var of ákafur í flutningi sínum og við áhorfendur á fullu í spastískum krampadans yfir brjálæðislega rytmískri tónlistinni. Þetta er ein af bestu tónleikaupplifunum mínum á síðari árum, án vafa. Tónlistinni mætti líkja við þjóðlagatónlist sem spiluð er á hjólsög - með virkilegu neistaflugi. Þetta er beinskeytt rokk þar sem frasarnir ganga fyrirsjáanlega en mjög stefnufast í hringi og magnast upp í átt að hápunkti, eins og hraðskreiður sportbíll sem bíður þess að lenda á vegg. Ég kom heim örmagna og átti bágt með að bograst um án þess að hrynja af þreytu áður en ég komst upp í rúm, með suð í eyrunum og sælusvip.

Engin ummæli: