Vigdís vinnur næturvaktir þessa helgina. Ég húmi heima í rökkrinu og reyni að hafa það notalegt á meðan. Það er svolítið undarlegt að vera svona einn þegar maður hefur vanist að búa með einhverjum. Persónulega grípur mig þörf fyrir að gera eitthvað óvenjulegt, eitthvað sem myndi ekki höfða til Vigdísar, - eitthvað sem annars væri ófélagslegt, skulum við segja. Stundum vinn ég í tölvunni við einhver hugðarefni eða sest niður og sekk ofan í bók – eða hlusta á skrýtna tónlist. Í kvöld datt ég hins vegar inn á snilldarlega afþreyingu. Þar sem ég var of þreyttur til að gera nokkuð krefjandi, og nennti ekki að horfa á sjónvarpið, fór ég að gramsa í gömlum kössum með teiknimyndasögublöðum. Þarna voru Tarzan, Spider-man, Batman og allar þessar hetjur. Fyrst kímdi ég við að sjá gömlu blöðin og handlék þau gegnum nostalgíuna en varð brátt fyrir vonbrigðum, því mér fannst sögurnar sjálfar ekki sérlega áhugaverðar. Eftir þó nokkrar flettingar greip mig hins vegar svart/hvít skáldsaga sem heitir Sin City. Þetta er tímamótaverk sem gerði teiknimyndasögur að sannkölluðu listformi og er af mörgum talið einn af hápunktum svokallaðra myndrænna skáldsagna (e. graphic novels). Hana keypti ég fyrir ábyggilega um tíu árum og hef alla tíð heillast af myndræna þættinum. Ég hef hingað til handleikið hana eins og ódauðlegt málverk. Núna settist ég hins vegar niður í húminu, sötraði Pilsner og hlustaði á eldgamla Nick Cave plötu og annað í þeim dúr á meðan ég las. Ég fann hvernig grafíska sagnaformið sameinaði snilldarlega helstu kosti bóka og kvikmynda.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli