sunnudagur, október 10, 2004

Tónlist: Hlustunarkvöld. Thin White Rope

Ein af uppáhaldshljómsveitum mínum, Thin White Rope, er ekki á hvers manns vörum. Ég sá hana á lokatónleikum þeirra 1992 en þá voru þeir búnir að starfa saman í tæpan áratug. Stíll þeirra einkennist af feedback-surgi og angurværum amerískum sveitahljóm þar sem tveir gítarleikarar, bassi og gítar tala saman líkt og snákar sem hringa sig utan um hvern annan. Ég bý náttúrulega á jaðri heimsins en á þessu skeri hef ég hingað til ekki vitað um neinn til að deila hrifningu minni með, sama hversu oft ég otaði bandinu að öðrum, - þar til fyrir rúmu ári síðan. Hendrix og Nick Cave aðdáandinn Einar vann næturvaktir á sambýlinu í Vættaborgum um tíma. Hann virtist heillast af Thin White Rope þegar ég lánaði honum tvo diska. Löngu síðar hitti ég hann fyrir tilviljun á kaffihúsi og lofaði ég honum þá að fá að heyra meira. Hugmyndin þróaðist hratt upp í hlustunarkvöld heima hjá mér ásamt sameiginlegum vinnufélaga okkar, Halldóri. Í gær komu þeir saman rétt fyrir miðnætti og kinkuðu íbyggnir kolli við að heyra tónlistina sem hefur svo lengi hrifið mig. Við þetta bættist, þegar á leið nóttina, tónlist á borð við sýrða Pink Floyd, gruggugan Hendrix, Stone Roses, Cream, Spiritualized og annað í þeim dúr, svolgrað niður með kaffi, pilsner og te (í þessari röð) - nánast fram í rautt morgunsárið.

Engin ummæli: