sunnudagur, febrúar 17, 2008

Daglegt líf: Strembinn hálfmánuður að baki

Finnst ykkur ekki orðið "hálfmánuður" virðulegt og flott fyrir tímabil sem spannar tvær vikur? Við höfum orðið "máni" og "hálfmáni" fyrir tunglið eins og það birtist okkur í sínum ýmsu myndum. Af hverju ekki að nota myndlíkinguna á sama hátt í tímatalinu?

En eins og segir í fyrirsögn þessarar færslu, þá hafa undanfarnar tvær vikur verið strembnar. Sú vika sem er að klárast var erfið að því leyti að ég þurfti að skila af mér vinnunni. Við fengum starfsmann til að hlaupa í skarðið fyrir mig (sem kom okkur öllum á óvart, eins og vinnumarkaðurinn er) og ég vildi eindregið skila af mér góðu búi. Hann mætti til vinnu í nokkra daga áður en ég skildi við og sá hvernig ég fór að því að ná til krakkanna, hvaða efnivið ég studdist við og hvernig verkahringurinn almennt væri. Þetta tók það mikinn tíma frá mér að ég hafði engan tíma til að skrifa skýrslur um þau börn sem hafa verið að útskrifast frá okkur. Það er eitt af því sem ég legg metnað minn í að gera vel og reikna með því að koma aftur eitthvert kvöldið til að klára þetta almennilega (2-3 tíma vinna). Svo á ég eftir að taka almennilega til í stofunni fyrir mánudaginn. Þetta allt ætlaði ég reyndar að gera núna um helgina en flensan sem herjar á okkur þessa dagana (og þá sérstaklega Vigdísi) gerir það að verkum að ég hef ekki komist. Kannski ég fari í hálftíma skottúr eftir að Signý sofnar í kvöld og snyrti stofuna aðeins til. Það er nú lágmark. Skýrslurnar koma síðan bara á næstu dögum.

En ég talaði um tvær erfiðar vikur að baki. Hin var alveg sérstök. Þá byrjaði Vigdís að vinna aftur og við þurftum að breyta rútínunni, vakna hálftíma fyrr en venjulega og fara öll saman út úr húsi á réttum tíma. Síðan skutlaði ég Signýju í leikskólann (upp úr hálf átta), svo Vigdísi í vinnuna (helst um kortér í átta) og því næst Hugrúnu til ömmu sinnar í pössun (upp úr átta) áður en ég mætti sjálfur í vinnu (fyrir klukkan hálf níu). Þetta gekk ágætlega upp en sem betur fer er Vigdís ekki á morgunvakt nema um það bil einu sinni í viku. Þegar hún er á kvöldvakt er rútínan einfaldari, en ég þarf að gæta þess að vera kominn sæmilega snemma heim til að ná í Signýju og skutla Vigdísi fyrir klukkan hálf fjögur.

Þetta er allt saman spurning um aðlögun og er bara strembið í fyrstu, eins og gengur, en slípast síðan til. Það sem gerði vikuna hins vegar sérlega erfiða er það að vinnuvikan hjá mér var óvenju þung. Vinnuhópurinn þurfti að sækja námskeið í sjálfsvörn og líkamsbeitingu frá tvö til hálf sex, mánudag, þriðjudag og fimmtudag. Ekki nóg með það heldur var líka heljarinnar kennararáðstefna á miðvikudeginum frá hádegi og fram að kvöldmat. Til að bæta gráu ofan á svart átti Vigdís afmæli þann daginn (þannig að ég smyglaði mér út þegjandi og hljóðalaust þegar prógrammið var hálfnað til að geta tekið á móti gestum með Vigdísi um kvöldið). Svo gerðist það að Signý veiktist í ofanálag og var frá þrjá daga vikunnar. Álagið heimavið var talsvert mikið. Ljósi punkturinn var hins vegar sá að Vigdísi fannst frábært að vera komin í vinnuna aftur. Það virkaði á hana sem hvíld. Á sama hátt fannst mér frískandi að sjá um telpurnar að kvöldlagi (þegar Vigdís var á kvöldvakt) og prófaði mig áfram með ýmislegt nýtt, eins og að búa til sérstakt leikhorn fyrir þær tvær í herberginu þeirra með því að ryðja til húsgögnum. Þær undu sér mjög vel saman í leik og það var í raun unun fyrir mig í leiðinni að fylgjast með þeim leika saman eins sáttar og þær voru.

Engin ummæli: