sunnudagur, apríl 27, 2008

Daglegt líf: Viðgerðir og veikindasaga

Jæja, nú er svolítið strembin törn að baki. Fyrir viku síðan fór bílnum snarlega hrakandi. Ég vissi af vafasamri legu (einni þeirra sem snúa viftureiminni) sem til stóð að skipta út. Það gaus upp af bílnum óþægileg hitalykt, sem líklega tengdist þessu. Þegar ég var kominn að því að fara með bílinn í yfirhalningu fór bíllinn í verkfall. Vélin rumskaði ekki einu sinni við start. Ég reddaði mér í vinnuna með öðrum hætti og hafði svo sambandi við "heimilislækninn" (bifvélavirkjann sem sér um viðhaldið fyrir okkkur). Þetta er sami maður og gerði við kúplinguna fyrr í vetur (sem ég greindi frá í smáatriðum á sínum tíma). Hann reyndist mér afar vel og bauðst til að skutla mér heim (býr í sama hverfi og ég vinn í) og kíkti á bílinn þar. Það myndu nú ekki allir gera umhugsunarlaust! Þar lagaði hann bílinn með nokkrum handtökum, og skipti svo um leguna í leiðinni. Þetta var víst bara einhver "oxun" í leiðslum þarna undir við geyminn og þurfti aðeins að hreyfa við þeim.

Þá virtist allt komið í fínt stand á ný. Bíllinn virkar enn mjög vel. Signý og Hugrún fóru hins vegar að vera eitthvað tæpar. Signý fór að hósta heilmikið, sérstaklega útafliggjandi. Læknisheimsókn á miðvikudaginn var leiddi ekkert í ljós annað en kvef sem lá ofarlega (engin lungnabólga, eyrnabólga né hálsbólga). Við höfðum ekki áhyggjur af því. Daginn eftir fór Hugrún hins vegar að verða slöpp og fékk hita. Aftur kíktum við á læknavaktina. Þar hafði læknirinn svipaða sögu að segja, nema hvað hún var með einhverja hálsbólgu. Hægt væri að gefa henni sýklalyf en við höfðum það frekar í bakhöndinni, ef hitinn skyldi aukast. Annars myndi þetta lagast af sjálfu sér. Daginn eftir gerðist það hins vegar. Hugrún fékk þá enn meiri hita og ég fór með hana aftur á læknavaktina. Fyrri daginn hafði ekki verið tekið strok úr háls en nú var það gert, ásamt því að við mættum til leiks með þvagsýni til stiksunar (stikkprufa með litavísbendinum um sýkingar). Ekkert kom afgerandi út úr því en læknirinn vísaði okkur á Barnadeild Landspílalans til nánari athugunar, af því Hugrún hafði áður fengið blöðrubólgu. Þar var ég hins vegar heilllengi (fram yfir miðnætti) og þvagið var metið hreint. Hins vegar var hálsstrok tekið á ný, dýpra en áður. Það er víst krítískt að strokið sé tekið mjög aftarlega í hálsinum. Ekki var hún með mikla streptokokkasýkingu, en með góðum vilja mátti greina á mælinum hvernig lóðrétta línan í plúsinum var að myndast dauft gegnum mínusinn. Þetta var nóg til að hleypa henni á sýklakúr, enda var hálsinn á henni Hugrúnu sýnilega mjög bólginn. Í þetta skipti má segja að ég hafi komið þreyttur en þó ekki tómhentur heim. Í gær (laugardag) kom svo loksins að því að Signý fékk hita. Á læknavaktinni þann daginn (maður er daglegur gestur, athugið) var það bara metið sem svo að miðað við að hún eigi systur á sýklakúr og sé með einhver einkenni sjálf þá þurfi ekki að taka strok úr henni. Sýklalyfin komu fyrirhafnarlaust.

Staðan er því sú í dag að Hugrún er búin að vera á kúrnum í rúman sólarhring og ætti að vera hætt að smita (miðað er við sólarhring eftir fyrstu inntöku). Signý er hins vegar enn á gráu svæði. Við höldum henni inni, ef við getum, og getum svo farið að hitta hvern sem er á morgun - eða að minnsta kosti annað kvöld. Þó óæskilegt sé að taka inn sýklalyf of oft getum andað léttar með það að þær verða varla með hita á afmælisdegi Hugrúnar, sem er nú í vikunni. Þá getum við gert okkur glaðan dag.

Engin ummæli: