mánudagur, apríl 18, 2011

Upplifun: Hávellandi í flæðarmálinu

Aftur segi ég frá fuglum. Í þetta skiptið var ég staddur við móttökustöð sorpu við Ánanaust og var að henda lífrænum úrgangi í sjóinn. Þetta geri ég öðru hvoru því það er enginn sem þjónustar þann úrgang sem auðveldast er að endurvinna (fisk, grænmeti og ávexti). Þetta fer allt í sjóinn hjá mér eftir því sem ég get komið því við. Þarna var ég búinn að klöngrast upp á varnargarðinn er ég heyrði fuglahóp ókyrrast undir niðri. Það voru Hávellur sem þar héldu sig tugum saman og syntu frá mér í flæðarmálinu. Söngur þeirra er mjög einkennandi með tónfalli sem maður fær á heilann (hér og hér má finna bæði hljóð og mynd). Þetta kom mér á óvart að sjá þær svona margar saman komnar. Venjulega sér maður eina og eina á stangli. Maður hefur getað gengið að því vísu að finna Hávellu á Bakkatjörn á Seltjarnarnesi og hélt ég að þar væri um að ræða eitt eða tvö varppör. Aldrei hef ég séð fuglinn í svona stórum hópi og fannst það sérlega skrautlegt, enda fallegur fugl með löngum stélfjöðrum.

Engin ummæli: