Svo ég leyfi mér nú að minnast aftur á Boston þá hef ég tekið eftir auknum vinsældum borgarinnar að undanförnu. Kannski er ég bara að ímynda mér þetta, orðinn svona meðvitaður um Boston eftir ferðalagið, en mér finnst eins og annar hver maður sé að koma frá Boston eða vera á leiðinni þangað eða, í það minnsta, þekkja vel til borgarinnar af eigin raun. Borgin virðist eiga sérstakan stað í huga margra Íslendinga, bæði búsettra hér og í Bandaríkjunum. Einhver talaði um að þegar maður býr í Bandaríkjunum og ferðast til Boston sé það nánast eins og að koma "heim". Hvort borgin minni sérstaklega á Ísland eða bara Evrópu veit ég ekki, en það segir nú margt um notalegt og afslappað andrúmsloftið sem þar er að finna. Ég get sagt, fyrir mitt leyti, að þetta er ótrúega vel lukkuð borg í alla staði. Hún er vinaleg, falleg á litinn (mikið um rauðan múrstein), allt í göngufæri í miðbænum og það sem meira er; þar hafa gangandi vegfarendur allan forgang (sem er ólíkt flestum öðrum Bandarískum stórborgum, geri ég ráð fyrir). Í borginni er merkilega samsettur arkítektúr þar sem hið gamla glampar í gljáfægðum háhýsum. Í borginni er fullt af afþreyingu, söfnum og frægum almenningsgörðum. Maturinn kom mér að auki mjög á óvart fyrir gæði og heilnæmi og jógurtísinn í Boston er engu líkur.Svo er fólkið einstaklega vinalegt. Stundum var maður beinlínis hissa á því hvað fólk lagði sig ákaft fram um að þjónusta mann, með bros á vör. Ég hafði það beinlínist á tilfinningunni að Bostonbúar væru hamingjusamari en gengur og gerist í stórborgum heimsins.
Borgin býður upp á eitt og annað sem prýðir stórar borgir. Leiðavísar og handbækur taka gjarnan söfnin og sögufrægar byggingar fyrir. En það eru litlu staðirnir sem gefa borginni jafn mikið og allar frægu byggingarnar. Ég var býsna duglegur að kanna ýmsa afkima borgarinnar og ætla að telja upp hér fyrir neðan. Þettu eru sem sagt staðir sem auðveldlega fara fram hjá ferðamönnum en voru að mínu mati óvæntir hápunktar.
Hótelið okkar (kennaranna í Brúarskóla) var Midtown Hotel. Hægt að mæla með því ef fólk sækist ekki eftir öðru en vel staðsettu hóteli með lágmarks lúxus. Til dæmis var enginn morgunmatur í boði á sjálfu hótelinu, sem er allt í lagi fyrir þá sem eru stöðugt að kanna umhverfi sitt hvort eð er. Hótelið er frábærlega staðsett og er líklega langódýrasti kosturinn í miðbæ Boston. Talandi um staðsetningu, þá er hótelið rétt fyrir utan einn glæsilegasta svæði borgarinnar: The Christian Science Center, þar sem ólikindaleg samsetning bygginga og tutttugu sentimetra djúp tjörn mynda mjög eftirminnilegt torg. Glæsilegt bæði í björtu og í næturlýsingu. Svo er hér glæsileg mynd af sjálfri tjörninni og samspili hennar við umhverfið, svona rétt til að undirstrika töframátt torgsins.
Rétt hjá hótelinu (og þessu torgi) er vinsæl verslunarmiðstöð (Prudential Center) sem dregur nafn sitt af háhýsi sem gnæfir yfir svæðinu (Prudential Tower). Hann var um tíma hæsta bygging Bostonborgar (þar til hinn frægi Hancock turn var reistur). Í Prudential turninum er víst boðið upp á útsýnispall (Skywalk) sem ég nýtti mér ekki því það kostaði einhver ósköp að fá að fara upp á þá hæð. Líklega er það þó þess virði því hann býður upp á heilhrings útsýni yfir borgina ásamt einhverjum upplýsingum. Næst besti kostur (eða sá besti að sumra mati) er að fara upp á bar sem heitir Top of the Hub og er staðsettur um það bil á sama stað (kannski hæðinni fyrir neðan) á fimmtugustu og annarri hæð. Það kostar ekki neitt, nema maður panti sér eitthvað á staðnum, sem er auðvitað huggulegast. Þar er boðið upp á lifandi tónlist - djass - og eftir að sú spilamennska hefst er rukkaðir 24 dollarar á mann fyrir sæti við borð. Barborðið er hins vegar ókeypis og það er líka leyfilegt að rölta aðeins um. Útsýni af þessum stað er magnað og mér fannst ég vera kominn í einhverja sérameríska bíómynd bara við það að vera staddur þarna inni og finna hvernig turninn "dúaði" örlítið.. Þessi upplifun var líklega hápunkturinn á "útlandaupplifuninni", ef ekki bókstaflega í metrum talið :-)
Ég rétt minntist á Hancock turninn áðan en í honum speglast skemmtilega allt umhverfið, sérstaklega ein frægasta bygging borgarinnar: The Trinity Church. Hún er opinberlega talin ein glæsilegasta bygging nýja heimsins (þá er Suður-Ameríka tekin með). Ég hefði eflaust notið þess að skoða hana betur, bæði að utan og að innan, en ég lét það ógert. Það var svo mikill asi á manni á þessum örfáu dögum sem maður hafði. Hins vegar skoðaði ég stað beint á móti kirkjunni frægu sem fer fram hjá flestum: Boston Public Library. Bókasafnið lætur ekki mikið yfir sér, þó virðulegt sé, þar sem það horfir þögult á glitrandi samspil gömlu kirkjunnar og upplitsdjarfa turnsins. En að innan er upplifunin vægast sagt mögnuð. Safnið er marmaraklætt í bak og fyrir, með aðalsal sem setur mann hljóðan. Svo lumar safnið á vel varðveittu leyndarmáli: Bakgarði þar sem hægt er að neyta veitinga í algjörri ró og spekt eins og á afskekktu klaustri. Það var sælukennd stund að fá sér morgunkaffi á þessu stað í góðra vina hópi.
Nú verð ég að hætta í bili,... held áfram með þetta fljótlega, í annarri færslu.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli