miðvikudagur, júlí 06, 2011

Daglegt líf: Sumaropnun

Í dag var fyrsti frídagur Signýjar og Hugrúnar frá leikskólanum. Hann var nýttur vel - til að sofa út, fara í Húsdýragarðinn og njóta matar í nettri garðveislu sem við Vigdís slógum upp fyrir foreldra okkar. Manni finnst sumarið vera fyrst núna að byrja og við buðum því upp á hina hefðbundnu sumarsúpu (uppskriftina má finna hér). Kannski voru einhverjir fínir sumardagar í júní, ég veit það ekki þar sem ég var fjarri góðu gamni mest allan mánuðinn. En reyndar gerði ég mér lítið fyrir og hélt sumarsúpuhefðinni á lofti á ferðalaginu og bryddaði upp á henni við gestgjafa minn í Maine. Robert og synir hans voru allir jafn ánægðir með súpuna og voru beinlínis hissa á bæði hráefnasamsetningunni og bragðinu. Maturinn mæltist sérlega vel þar - sem og hér í dag. Við áttum sérlega náðuga stund í garðinum þrátt fyrir tilhugsunina um að í næsta garði sé vettvangur sjónvarpsþáttarins Gulli byggir. Gulli sást hvergi, kannski að lagfæra annað hús í dag, eða bara að sóla sig í blíðviðrinu allt annars staðar.

Engin ummæli: