Þegar ég ferðaðist um Maine sá ég mjög fjölskrúðugt dýralíf. Broddgeltir, hirtir, skjaldbökur, froskar og skunkar eru á hverju strái. Þetta eru dýr sem vekja athygli okkar Íslendinga þó algeng séu víða um heim, enda eigum við ekkert sem líkist þeim á okkar afskekktu eyju. Svo lenti ég í þeirra fágætu upplifun að verða fyrir aðkasti múrmeldýrs (Groundhog). Þetta er fremur stórt nagdýr (á stærð við stóran kött). Það er ekki mjög algengt á þessu svæði en það ruddist úr runna með látum, hrein eins og svín, og staðnæmdist nokkrum metrum fyrir framan mig. Það sá að ég var tíu sinnum stærri og ekkert á leiðinni burt. Það virtist hugsa sig um (í um tíu sekúndur) og lét sig svo hverfa aftur inn í runnann. Mér skilst að þetta hafi verið óvenjuleg uppifun því múrmeldýr eru að jafnaði mjög mikla mannafælur. Líklega bara að verja sitt svæði, með afdrep í þéttum og villtum runnagróðri. Þarna eru líka íkornar úti um allt (bæði venjulegir og líka þessir litlu sætu sem kallast "chipmunks" á ensku). Íkornarnir þeir eru ekkert að hafa fyrir því að fela sig, enda kvikir með endemum. Ég sá enga snáka í Maine og sem betur fer eru þeir sem þar finnast ekki eitraðir. Fuglalífið er síðan alveg sérkapituli út af fyrir sig (næsta bloggfærsla).
Þetta fylki er að mörgu leyti kjörsvæði náttúruunnenda. Maine er skógivaxnasta ríki Bandaríkjanna og mjög hálent. Árnar liðast um allt fylkið frá vestri til austurs í átt til Atlantshafsins og eru með vatni sínu bæði samgönguæðar, útivistarparadís og lífæðar fyrir gróður og dýr. Samfélagið er líka nokkuð sérstakt. Maine er nyrsta ríki Bandaríkjanna og sem slíkt er það mikið jaðarsvæði í þeim skilningi að þangað sækja margir Bandaríkjamenn sem eru búnir að fá nóg af öllu neyslusamfélaginu annars staðar í landinu. Þar hafa í gegnum tíðina sest að margir þekktir einstaklingar, gjarnan rithöfundar, sem vilja fá að vera í friði frá áreitum nútímasamfélags. Maine er tiltölulega drefibýlt ríki og samfélagið mátulega fábrotið með miklum þorpsbrag. Íbúar Maine leggja mikið upp úr því að lifa í nánu sambýli við náttúruna í stað þess að leggja hana undir sig og eru stoltir af því að geta lifað af landsins gæðum nokkurn veginn í takt við náttúruna. Þeir eru að miklu leyti sjálfum sér nógir. Maine er eitt af fátækari ríkjum Bandaríkjanna og er það er nokkuð sem íbúar fylkisins hafa valið sér. Þeir kjósa greiðan aðgang að óspilltri náttúru umfram þann fjárhagslega kost sem hlýst af stórbrotnum virkjunum og verksmiðjum. Þeir eru tilbúnir að láta af hendi fjárhagslegt ríkidæmi til að eiga náttúruna í bakgarðinum. Það er lúxus sem flestir aðrir Bandaríkjamenn þurfa að greiða háa summu fyrir að njóta í sínu fylki, benda þeir gjarnan á. Menningin á svæðinu ber óneitanlega svolítinn keim af þessu viðhorfi. Andrúmsloftið er mjög afslappað og enginn virðist vera að flýta sér. Þarna eru svo sem aðgangur að öllu því sem einkennir vestræn samfélög en þetta er dreifðara og rólegra. Nytjamarkaðir eru áberandi þáttur í þorpsbragnum ásamt bílskúrssölum (sem kallast "Yard sale") og er hægt að gera þar verulega góð kaup.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli