föstudagur, júlí 22, 2011

Daglegt líf: Sumarið í hnotskurn

Sumarið hefur raskað bloggfærslum undanfarna daga og þannig á það auvitað að vera. Við höfum verið mikið á flandri. Ég nota þetta orð frekar en að vísa í "ferðalög" því við höfum stundað dagsferðir út frá borginni eins og andinn hefur blásið okkur í brjóst hverju sinni. Við erum að tala um Viðeyjarferð, nestisferð í Mosó, óvissuferð í Borgarnes (sem kom okkur talsvert á óvart með andlitslyftingu), humarveislu á Stokkseyri og heimsókn upp á Laugarvatn. Núna í þessari viku hafa Signý og Hugrún lagt áherslu á að vera bara heima, orðnar þreyttar á að vera sífellt á ferðinni. Hér er líka nóg að gera, bæði inni og úti. Við förum oft í fjöruna hér rétt hjá og stefnum á nokkra hjólatúra eftir Ægissíðunni, svo að ekki sé minnst á Gróttugöngur. Signý óskaði í gær sérstaklega eftir því að fá að fara fljótlega í "gamla kirkjugarðinn" við Suðurgötuna og talar að auki reglulega um Húsdýragarðinn. Svo er alltaf gott að hanga inni öðru hvoru. Núna í dag tók ég vænan bunka af myndum á leigu, fyrir bæði þær og okkur Vigdísi, á meðan bókasafnið á Seltjarnarnesi verður í fríi næstu tvær vikur.

Engin ummæli: