Fyrsta skólavikan er að baki og hún gekk eins og í sögu. Fyrsti dagurinn var svolítið skrítinn fyrir mig sérstaklega, frekar en Signýju. Ég stóð í biðröð með henni ásamt öðrum börnum og foreldrum. Við vissum ekki nákvæmlega hvað var í vændum. Ég hafði sjálfur tekið mér frí í fyrstu kennslustund í vinnunni minni því ég átti allt eins von á því að eiga einhver samskipti við kennara svona fyrsta daginn. Krakkarnir söfnuðust saman í röð og biðu í ofvæni. Við foreldrarnir skiptumst á eftirvæntingarsvipbrigðum en létum sem minnst á óöryggi. Signý hélt sig í kunnuglegum félagsskap úr leikskólanum sínum (þrír sem fylgja henni þaðan) og börnin báru saman skólatöskur í snyrtilegri röð. Svo opnuðust dyrnar og glaðlegar en rólegar raddir kennaranna sögðu: "Jæja, gaman að sjá ykkur. Þá er fyrsti dagurinn loksins byrjaður. Allir komnir í röð. Nú má litla fólkið koma inn fyrir en stóra fólkið - foreldrar og aðstandendur - verða að bíða". Svo fylgdumst við með litlu krílunum okkar rölta inn eins og ekkert væri. Signý leit ekki einu sinni um öxl þegar röðin fór af stað. Svo hurfu þau inn í þetta lokaða rými. Nokkrir vel valdir kennarar voru fengnir til að rölta um og taka myndir af þessari stóru stund í lífi barnanna. Einn var með kvikmyndavél við innganginn og gómaði barnaskarann á leið sinni inn fyrir í fyrsta skipti. Annar kennari, skólastjórinn reyndar, rölti um sposkur á svip og tók myndir af áhyggjufullum foreldrum. Síðan sagði hann að endingu í stíðnislegum tón rétt áður en hann lét sig hverfa inn aftur: "Þetta verður allt í lagi!"
Það var svolítið undarlegt spennufall sem fylgdi því að horfast í auga við tómhenta foreldra á lóðinni sem vissu ekki hvort þeir ættu að fara eða vera. Ég viðurkenndi að hingað til hafi Signý verið kvíðin (fyrir kynningu og skólasetningu nokkrum dögum fyrr) og ég hafi þá verið til taks en núna þegar ég vissi að hún ætti eftir að vera í skólanum á eigin spýtur þá var ég kvíðin en ekki hún. Ein talaði um að börnin væru vön því sem væri í vændum því það væri alltaf svo mikið prógramm í leikskólanum. Þau væru sjóaðri en maður héldi. Svo rölti maður burt og sá foreldrahópinn dreifast vandræðalega á eftir sér. Einhvern veginn held ég að þau hafi átt von á meiri aðlögun - fyrir sig kannski.
Þegar ég sótti Signýju seinna um daginn var Signý brött og dundaði sér við að mála mynd. Hún vildi ekki standa á fætur fyrir en verkinu væri lokið. Hún lét ekkert bera á þreytu en viðurkenndi þó eftir á að þetta hefði verið "erfitt" og að hún væri "þreytt". Svo var þetta auðveldara og auðveldara með hverjum deginum. Á föstudaginn var sótti ég Signýju áður en ég fór til Hugrúnar. Hún Signý var mjög kát með það að heilsa upp á yngri vini sína úr leikskólanum. Hún virtist helst vilja vera á báðum stöðum. Hugrúnu finnst hins vegar erfitt að sjá á eftir systur sinni. Nú er hún "ein" í leikskólanum og finnst það pínu erfitt hlutskipti. En það á eftir að venjast hratt.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli