þriðjudagur, ágúst 09, 2011
Upplifun: Eldsvoði í nágrenninu
Við vorum að spóka okkur í garðinum, stelpurnar í uppblásnu sundlauginni í steikjandi hita, ég að lesa bók í rólegheitunum og Vigdís að búa til humarsúpu (í eldhúsinu reyndar) þegar sírenuvæl heyrðist eftir nærliggjandi götu. Signý fór strax að herma eftir hljóðunum og var hálfkvartandi yfir þeim, skildi ekkert hvernig á þeim stæði. Fleiri hljóð fylgdu á eftir og staðnæmdust í nokkurra húsa fjarlægð. Okkur var hreint ekki sama því hljóðið líktist slökkviliðinu. Okkur Vigdísi datt í hug að hringja í Ásdísi systur hennar af því hún býr uppi á fjórðu hæð nokkru vestar og hefði getað sagt okkur hvað væri á seyði. Ekki náðist í hana. Mér datt í hug að skjótast inn og kíkja á netið þegar við fundum reykjarlykt og heyrðum brothljóð í rúðu. Þetta var svolítið skuggalegt að heyra. Hljóðin og lyktin bárust vel yfir í garðinn okkar en við sáum ekkert. Við krökkluðumst inn á þessum tímapunkti og lokuðum öllum gluggum enda aldrei að vita nema stækan reyk leggi yfir svæðið. En sem betur fer þróaðist það ekki á þann veg. Netið greindi frá bruna í risíbúð á Nesveginum (samhliða Granaskjólinu) og það gekk víst vel að slökkva eldinn.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli