þriðjudagur, ágúst 09, 2011

Pæling: Hvenær verður jökull að Snæfelli?

Um daginn var heiðskírt og gullfallegt veður. Ég tók eftir áberandi glitskýi rétt til hliðar við Snæfellsjökul. Þetta var mjög áberandi bæði vegna þess hve "sjálflýsandi" skýið var og að það var nánast eina skýið ofan sjóndeildarhrings, svona skemmtilega staðsett við hliðina á jöklinum sem blasir við okkur borgarbúum. Mikill fjöldi ferðamanna raðaði sér upp eftir strandlengjunni á leið minni eftir Sæbrautinni gagnteknir af undrinu - flestir uppteknir af því að góma fyrirbærið á mynd. Því miður var ég ekki með vél á mér en átti von á finna eitthvað af þessum myndum á netinu. Ég hef enga fundið enn. Myndir af glitskýjum er hins vegar gaman að gúggla.

Ég tók eftir því í leiðinni hvað jökullinn á Snæfellsnesi hefur hopað undanfarin ár. Það sést bara í klöppina langleiðina upp á topp! Hvað verður um Snæfellsjökul eftir nokkra áratugi? Hann verður væntanlega ekki svipur hjá sjón miðað við það sem nú er. Og hvað verður hann þá kallaður þegar snjóa leysir á sumrin? Þá verður hann ekki lengur jökull, samkvæmt skilgreiningunni. Verður þá bara talað um fellið sem slíkt? Lógískt væri að tala um Snæfell en ekki Snæfellsjökul. En nú er annað Snæfell fyrir austan. Til að forðast misskilning yrði að tilgreina um hvort fellið væri að ræða. Snæfell við Lónsöræfi og Snæfell á Snæfellsnesi. Þá ber nesið loksnis nafn með rentu.

Þá veltir maður fyrir sér hvað Snæfellsjökull er gamall, sem slíkur. Fellið virðist nefnilega vera upprunalegra heit (enda er nesið nefnt eftir því en ekki jöklinum). Einhvern tímann á hlýskeiði - rétt eftir landnám - var mun hlýrra en nú er og kannski ólíklegt að jökullinn hafi verið til staðar, nema í mýflugumynd, sem Snæfell.

Engin ummæli: