Svo að öllu sé nú haldið til haga verð ég að rifja lauslega upp fjögurra ára afmæli Hugrúnar sem haldið var samkvæmt venju rétt fyrir mánaðamótin síðustu. Hugrún var mjög spennt dagana fyrir afmælið og kvartaði sáran undir það síðasta (alveg fram á síðasta dag) yfir því hvað það væri enn langt í afmælið. En svo kom þetta allt saman á endanum. Afmælið var tiltölulega hefðbundið en frekar opið enda ekki um neina formlega veisluboðun að ræða. Þetta bara spurðist út svo að segja. Sumir komu á laugardegi, aðrir á sunnudegi og svo var botninn sleginn í þetta á mánudegi. Það vildi svo skemmtilega til að þeir sem hrifnastir eru af pönnukökum fengu sitt á laugardegi, aðrir fengu kökur og með því næsta dag á meðan mánudagsgestir nutu góðs af léttum kvöldmat og veislurestum í eftirrétt. Margt var í boði og flest allt kökukyns, frá brauðtertum yfir í rjómatertur með viðkomu í hefðbundinni súkkulaðiköku. Hins vegar er óhætt er að fullyrða að hjónabandssælan sem Begga systir kom með hafi slegið í gegn. Sumir veislugesta voru farnir að gera ráð fyrir henni og urðu hreint ekki fyrir vonbrigðum.
Svo tóku margir gestanna eftir myndarlegu teppi í stofunni (sem ég minntist á í síðustu færslu). Við keyptum það á flóamarkaði á Eiðistorgi í miðjum aprílmánuði. Það er hnausþykkt og veitir velkomna hlýju gegnum iljarnar. Ekki veitir af í okkar gólfköldu íbúð. Það er bæði hlýlegt að sjá og notalegt viðkomu. Svo þurfum við heldur ekki lengur að dreifa inniskóm á alla okkar gesti, sem er óneitanlega hagræðing í leiðinni (inniskórnir eru samt enn í boði fyrir þá sem vilja). Mamma var kannski hrifnust allra af teppinu og kíkti strax undir það og staðfesti að þetta væri alveg sérstakt hágæðateppi. Við vorum ákaflega ánægð með þann vitnisburð því oft áður höfðum við reynt að kaupa teppi á gólfið en orðið fyrir vonbrigðum. Þetta er sko allt annað en IKEA og rúmfatalagersteppin sem við reyndum að redda okkur með á sínum tíma.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli