miðvikudagur, maí 18, 2011

Pæling: Falskar minningar

Hugrún getur stundum verið gleymin. Um daginn gleymdi hún sólhatti í matvörubúð Hagkaupa á Eiðistorgi. Við vorum þá öll fjögur á ferðinni og svolitið flókið að rekja ferðir okkar aftur í tímann. Fyrir vikið fundum við hann ekki sama hvar við leituðum. Daginn eftir vorum við Hugrún hins vegar þar á ferð aftur af tilviljun. Við vorum bara að drepa tímann á bókasafninu og ráfuðum niður í anddyri Hagkaupa. Allt í einu rak ég tána í hattinn þar sem hann lá á gólfinu í versluninni. Þá mundum við eftir því hvernig hún hafði sest í smástund í leikfangabíl (knúinn krónupeningum) sem þarna er alltaf í horninu og svo hafði hún yfirgefið hann í flýti. Þannig gerast hlutirnir yfirleitt. Við brostum bæði tvö við að sjá hattinn birtast upp úr þurru. Það voru ánægjulegir endurfundir. En hún var hins vegar ekki eins ánægð í dag þegar hún fann buffið sitt í annarri verslun. Sú saga hófst í gær. Þá fór ég í lagersölu forlaganna á Granda með Signýju og Hugrúnu. Þær voru báðar með buff á höfði. Síðan fórum við í BYKO og þaðan heim. Þá var Hugrún allt í einu ekki með buffið lengur á höfðinu. Ég spurði þær systurnar út í það hvort þær myndu eftir buffinu á einhverjum stað frekar en öðrum og þær náðu að tala sig saman um það að Hugrún hefði verið með buffið á höfðinu þegar þær fóru inn í BYKO. Þær voru eiginlega alveg sannfærðar um það. Við fórum auðvitað þangað strax en fundum ekki neitt. Ég vissi að lagersalan var lokuð þegar hér var komið sögu svo við fórum bara heim eftir þetta, bufflaus.

Í dag fór ég hins vegar beint í lagersöluna eftir að ég sótti Signýju og Hugrúnu í leikskólann. Á leiðinni þangað reyndu þær að telja mér trú um að þetta væri erindisleysa því þær mundu vel eftir buffinu í BYKO. Ég batt hins vegar vonir við að finna það þar þrátt fyrir sannfæringarkraft systranna því ég mundi vel eftir því að Hugrún hafði verið svolítið kærulaus með buffið í lagersölunni. Og viti menn! Þar lá það á vísum stað. Signý og Hugrún þurftu ekki einu sinni að koma inn í söluna með mér að leita að buffinu því það var svo auðfundið. Þegar ég veifaði buffinu til þeirra glaður þar sem þær sátu í bílnum settu þær strax upp tortryggnissvip og fóru að efast um að þetta væri sama buffið. Þeim fannst það vera eittvað öðruvísi, kannski svolítið hreinlegra en buffið hennar Hugrúnar. Það hlyti einhver annar að eiga það! Hugrún gekk meira að segja svo langt að álykta að vinkona hennar úr leikskólanum (sem á eins buff og hún) hlyti að hafa verið þarna í gær! Þær gáfu sig ekki með þetta fyrr en ég stakk upp á því að við færum með buffið heim til vinkonu hennar. Þá viðurkenndi Hugrún loksins að hún ætti það.

Þetta er svolítið magnað og rímar ágætlega við félags- og sálfræðikenningar sem greina frá því hversu hæglega við skáldum inni í eyður í minningasafninu. Okkur finnst við stundum hafa gert eitthvað bara ef við höfum heyrt endurtekna frásögn af því. Vitnisburður sjónarvotta er ekki lengur talinn áreiðanleg sönnun fyrir einu eða neinu í rétti af þessum sökum. Hópar manna geta talið sjálfum sér trú um að hafa upplifað eitthvað í sameiningu, svo lengi sem þeir geta talað sig saman um það. Í þessu tilviki voru Signý og Hugrún búnar að búa til sameiginlega minningu sem reyndist röng. Það hefur ábyggilega verið óþægileg upplifun fyrir þær báðar.

Engin ummæli: