mánudagur, maí 30, 2011
Fréttnæmt: Netsamband
Ég hef verið í stökustu vandræðum með að halda netsambandi undanfarið. Við Vigdís ákváðum á dögunum að taka stökkið yfir í hinn glæsilega ljósleiðaravædda heim í boði Vodafone. Þeir komu á staðinn á þriðjudaginn var og aftengdu gömlu ADSL tenginguna og settu ljósleiðara í allt: Sjónvarp, síma og net. Sjónvarpið er orðið mun skarpara en áður. Við vorum með loftnetsdraug sem hvarf eins og dögg fyrir sólu með þessari nýju tækni. Síminn er bara eins og áður; hann virkar. Netið var hins vegar í lamasessi. Sambandið var stopult strax frá fyrsta degi. Auðvitað var það fínt á meðan tæknimaðurinn var á staðnum en strax um kvöldið var það farið að stríða okkur og hefur gert það alla tíð síðan. Þetta kostaði mikla símadvöl við það eitt að bíða eftir að komast að hjá símaþjónustu Vodafone. Eftir fjöldann allan af leiðbeiningum símleiðis og þreytandi biðtíma ákvað ég að varpa boltanum yfir til þeirra. Ég hringdi til þeirra fyrir hádegi úr vinnunni (þá er auðveldara að komast að) og pantaði símatíma hjá þeim, ef svo má að orði komast. Ég bara lýsti ástandinu og fór fram á það að þeir hringdu í mig um fimmleytið. Og það gerðu þeir, að sjálfsögðu, og náðu með einhverjum nýjum göldrum (og samvinnu við mig) að endurstilla "routerinn". Nú virkar þetta eins og smurt. Nýtt líf, að sjálfsögðu, í netskilningi þess orðs.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli