Í dag var fallegur dagur og við nýttum hann til að kíkja á Hörpu, nýja tónlistar- og ráðstefnuhúsið við höfnina. Kraðakið var mikið í mannþrönginni svo það er erfitt að meta áhrifamátt hússins að svo stöddu. Okkur fannst það í fljótu bragði svolítið kuldalegt og hrátt en það er ekki alveg að marka. Það er ekki alveg tilbúið enn þá.
Við fórum á kynningartónleikana með "Maxímús músíkús" með Signýj og Hugrúnu ásamt Beggu, Fannari og Guðnýju. Þetta var athyglisverð dagskrá. Sagan var um músina Maxímús sem villist inn í tónlistarhúsið og undrast yfir öllum þeim hljóðum sem þar berast um. Þetta er kynning á tónheim sinfóníuhljómsveitarinnar af sjónarhóli músarinnar. Sögumaður hélt þræðinum og talaði fyrir hönd músarinnar á meðan hljómsveitin spilaði Bolero, upphafskaflann úr 5 sinfóníu Beethovens og Fanfara for the Common man (e. Copland) ásamt íslenskum sönglögum. Vel heppnað, að mínu mati, og sniðugt að hafa sögumann inni í tónlistinni sem túlkar þennan framandi tónheim eins og hann berst músinni.
Eftir tónleikana fórum við saman á Kjarvalsstaði. Þetta var sem sagt eins konar menningarreisa. Við kíktum á sýninguna sem helguð er íslenska hestinum. Ég mæli með henni við alla. Hún höfðar sterklega til þeirra sem aðhyllast natrúarlisma í myndlist og er í leiðinni mjög skiljanleg börnum. Signý og Hugrún virtust að minnsta kosti hafa áhuga á að skoða allar myndirnar. Þetta er líka áhugaverður þverskurður íslenskrar myndlistar í gegnum tíðina því nálgunin á viðfangsefnið var mjög ólík, frá náttúrutómantí Þórarins B. Þorlákssonar til dagsins í dag.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli