föstudagur, september 23, 2011

Uppákoma: Kisuafmæli

Signý bauð tveimur vinkonum sínum heim í dag í tilefni þess að kisan hennar ætti afmæli. En það var svolítið vandasamt því hún á engan kött. Ekki hér heima, að minnsta kosti. Hins vegar sá hún fyrir nokkrum dögum villikött í fjörunni hér rétt hjá og lék sér aðeins við hann. Þá ákvað hún að hann skyldi vera kötturinn sinn. Eftir það hefur hún talað um hann hiklaust sem sinn eigin kött af miklum sannfærngarkrafti, þó hann gangi laus og villtur um fjöruna. Kötturin ber meira að segja virðulegt nafn: Silja Ljósbrá, kallaður Bíbí.

Núna var sem sagt komið að því að taka á móti vinkonum hennar sem gerðu ráð fyrir kisuafmæli. Ég vildi ekki að þær yrðu fyrir vonbrigðum eða fyndust þær hafa verið plataðar svo ég ákvað að taka strax fram, þegar þær voru sóttar, að hún ætti ekki "venjulegan kött" heldur "villikött" og bauð þeim í óvissuferð um fjöruna, með ferskan túnfisk í farteskinu í tilefni af "afmælinu". Þetta var auðvitað ákaflega spennandi. Við hrifsuðum með okkur ferskar "barnagulrætur" úr garðinum sem nesti og skoluðum í garðslöngunni og skoðuðum svo fjöruna í krók og kima. Eftir drjúgan rannsóknarleiðangur um fjöruna, þar sem ekki sást nokkur köttur á kreiki (aldrei þessu vant), voru þær allar sáttar við að koma aftur inn. Við skildum auðvitað túnfiskinn eftir á myndarlegri syllu fyrir kisuna, með útsýni og polli (til að baða sig í eftir matinn). Svo fórum við inn, þær fengu allar afhentar heimatilbúnar "Hello Kitty" litabækur og horfu saman á teiknimynd, allar sáttar við sinn hlut.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það er auðvitað bara
SNILLD að redda sér gæludýri sem enginn annar gerir kröfu í
og þarf ekki að hugsa um.

;)