Komin heim. Ég kom fyrir nokkrum dögum og hef verið merkilega þreyttur síðan, bæði eftir flugið og tímamismuninn. Það er einhvern veginn miklu erfiðara að fara "fram" í tímann en "aftur". Þegar ég var kominn til Boston bættust bara fjórir tímar við sólarhringinn (þeir eru sem sagt fjórum tímum á eftir okkur). Það skapar ekki mikinn vanda að vera orðinn dauðþreyttur fyrir miðnætti. Maður fer þá bara tiltölulega snemma að sofa og vaknar snemma daginn eftir. En á hinn veginn er agalegt að þurfa að fara að sofa löngu áður en maður er orðinn þreyttur, kominn heim og líkamsklukkan segir átta þegar klukkan á veggnum bendir á tólf. Þegar heim er komið er ekki hægt að leyfa sér það svigrúm að vaka og sofa fram eftir marga daga í röð. Morgnarnir hafa því verið níðþungir, líkamlega séð, enda þegar allir fóru í vinnuna/leikskólann á mánudaginn var kveinaði líkaminn og stundi: ÞRJÚ! Enda var ég að vakna klukkan þrjú þegar klukkan vakti okkur um sjöleytið.
Flugferðin var líka strembin. Það á nefnilega við flugið auk aðdragandans. Ég átti kvöldflug heim (21.30) frá Boston en vaknaði þann morguninn í Maine. Dagurinn byrjaði reyndar mjög glæsilega, með klukkutíma kanósiglingu á spegilsléttri Penobscot ánni eldsnemma morguns. Allt hafurtaskið beið mín hins vegar og um ellefu var ég kominn upp á rútustöð. Rútuferðin tók fjóra tíma (11-15). Ég hafði verið svo "sniðugur" þegar ég upphaflega fór til Maine að fá hótelið í Boston til að geyma heila ferðatösku (já, ég var duglegur í innkaupum) og ætlaði mér alltaf að fara beint frá Maine á flugvöllinn, skilja farangurinn minn í hólfi þar og koma svo í bæinn, eiga náðuga klukkutíma þar á kaffihúsum og bæjarrölti (rifja upp kynnin af þessari merkilegu borg) og fara svo léttur í fasi á hótelið, ná í hina töskuna mína þar, snara mér upp á flugvöll, pikka upp restina af farangrinum. Skynsamlegt plan. Svona hefur þetta alltaf gengið hjá mér. En í Maine frétti ég á síðustu stundu að flugvellirnir væru hættir að taka á móti farangri til geymslu (vegna sprengjuhættu, væntanlega). Ég þurfti því að fara með níðþunga ferðatöskuna (23 kíló) auk annars farangurs (samtals yfir tíu kíló þar að auki) alla leið niður í bæ. Þar þurfti ég að eyða drjúgum tíma í að hagræða milli taskanna tveggja. Reglurnar leyfa tvær ferðatöskur á mann, 23 kíló hvor, auk handfarangurs. En það tók mig langan tíma að koma öllu heim og saman því það endaði alltaf með því að ég hélt á tveimur handtöskum auk ferðataskanna. Auk þess var vigtin á hótelinu sem ég stólaði á biluð. Þetta var bara kaós. Á endanum gaf ég starfsmanni eina tösku auk tveggja þungra bóka sem ég hafði keypt, því yfirvigtin var annars yfirvofandi. En ég horfðist samt í augu við stóra fyrirstöðu: óheppilega samsetningu taskanna. Ferðatöskurnar og handfarangurinn voru allt hefðbundnar ferðatöskur. Ég gat ekki skellt neinni þeirra á bakið á mér eins og bakpoka. Það var því útlilokað að fara á eigin vegum upp á flugvöll með töskurnar í eftirdragi. Til þess hefði ég þurft þrjár hendur, í það minnsta. Ég þurfti því að sætta mig við að fara með leigubíl upp á flugvöll (5000 kall) í stað þess að nota neðanjarðarlestina (200 kall). Allt var þetta strembið og stressandi og óneitanlega svekkjandi. Ég komst hins vegar klakklaust upp á flugvöll á góðum tíma en þá tók við nýtt vandamál: Bílstjórinn tók ekki við korti. Ég þurfti að fínkemba flugvöllinn eftir hraðbanka til að geta borgað honum. Fyrsti hraðbankinn hafnaði kortinu (þá varð ég smá stressaður aftur) en á jaðri flugvallarins var mér bent á annan kassa, sem reyndist fær um að afgreiða mig. Að þessu aukastressi loknu komst ég loks í gegn um hliðið, en með naumindum. Ég var með bakpaka auk handtöskunnar og ferðataskanna beggja og það mátti strangt til tekið ekki fara með nema eina tösku inn í vél. En það er sem betur fer veitt smá svigrúm öðru hvoru. Ef maður blikkar afgreiðsludömurnar.
Síðan var það flugferðin. Hún var reyndar bara notaleg en þetta var hins vegar næturflug og mér gengur alltaf mjög illa að sofa í bæði rútum og flugvélum. Ég var því með talsvert mikla uppsafnaða þreytu þegar heim var komið. Eins gott að ég þurfti ekki að redda mér sjálfur heim af Leifsstöð. Mín beið myndarleg móttökunefnd (mamma, pabbi og Vigdís). Og veðrið var eins gott og það verður, bæði milt og stillt. Signý og Hugrún biðu síðan heima - fengu frí úr leiskólanum. Heimkoman var því góð, en mikið var ég syfjaður upp úr hádegi (og rotaðist að sjálfsögðu). Fór svo út að borða með Vigdísi um eftirmiðdaginn. Varð svo aftur syfjaður um níuleytið og sofnaði og hélt að með því myndi ég snúa sólarhringnum mér í hag aftur - en, eins og hendi væri veifað glaðvaknaði ég fyrir miðnætti. Líkamsklukkan var víst eitthvað að efast. Með herkjum sofnaði ég svo aftur nokkrum tímum síðar. Svona jó-jó svefn getur reynt á þolinmæðina. Miðnættin hafa verið merkilega glaðsperrt undanfarið. En núna er þetta að mestu komið, sem betur fer.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli