mánudagur, júní 20, 2011
Ferðalag: Skólaheimsóknir í New Hampshire
Eins og ég sagði í síðasta innleggi er ég staddur í útlöndum, nánar tiltekiði í Maine í Bandaríkjunum, eftir vel heppnaða viðkomu í Boston. Ég fór til Boston með skólanum til að skoða tvo mjög athyglisverða sérskóla. Annar þeirra var heimavistarskóli uppi í sveit í gríðarlega fallegu umhverfi í New Hampshire (sem er fylkið á milli Maine og Massachussetts þar sem Boston liggur). Þessi sveitaskóli er einkarekinn, einfaldur og hlaðinn bókum. Hann er mjög gamaldags og sjarmerandi. Þarna fá nemendur með tilfinninga- og samskiptavanda (Asperger, Tourette og ofvirkir) að starfa í einfaldara umhverfi en hinum venjulega skóla, með færri nemendur og nær náttúrunni þannig að þeir róast töluvert. Þarna er líka svigrúm til að taka á þeim reiðiköstum sem öðru hvoru gjósa upp án þess að það hafi einhverjar alvarlegar afleiðingar (samanborið við venjulegan skóla, þar sem umtal og viðbrögð umhverfisins magnar upp neikvæð áhrif af óæskilegri hegðun). Hinn skólinn sem við skoðuðum var líka í New Hampshire og var hefðbundnari skóli með sérstöku útibúi fyrir erfiðustu nemendurna. Það sem sá skóli hafði fyrst og fremst fram að færa var mjög skilvirkt skráningarkerfi sem gerði starfsfólkinu kleift að fylgjast mjög náið með líðan og framgangi nemenda, sem gerði þeim kleift að grípa snemma inn í þegar þeir áttu í vanda. Þá hófst viðtalsferli sem var mjög hvetjandi. Ólíkt því sem við erum vön úr okkar skólakerfi byggjast slík viðtöl ekki á skömmum eða refsingum heldur er farið í saumana á því hvaða persónu nemandinnn hefur að geyma og reynt að skoða mjög nákvæmlega hvert hann stefnir og hver áhugamálin eða hæfnissviðin eru. Með þessari umgjörð og viðtölum upplifa nemendur mikið aðhald og virðingu í sinn garð. Eins og einn nemandinn sagði: "I saw that they truly cared for me. I just didn´t know how to care for myself". Kennarar Brúarskóla voru mjög ánægðir með þessar heimsóknir og við eigum ábyggilega eftir að nýta okkar margar hugmyndir þaðan næsta vetur.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli