mánudagur, júní 20, 2011

Ferðalag: Boston í stuttu máli

Dvölin í Boston var ágætis mótvægi við skólaheimsóknirnar til New Hampshire. Borgin býður upp á svo ótalmargt og er miklu aðgengilegri og þægilegri en flestar aðrar borgir í Bandaríkjunum. Það er auðvelt að komast gangandi á milli staða í miðbænum og almenningssamgöngur er fyrsta flokks. Borgin er mjög græn og húsin flestar rauðleitar múrsteinsbygginar, líka kirkjurnar (ein þeirra mjög fræg: the Trinity Church). Á móti þessu glampa háhýsi hér og þar. Maturinn í Boston er sérlega góður. Sætabrauðið er ómótstæðilegt og ísinn sem þeir bjóða upp á er frábær. Það er mjög öflug jógúrtísmenning hér með dýrindis kurli út á sem freistandi er að éta í hvert mál. Ein verslunargatan er fræg um allan heim fyrir sjarma sinn og gæði verslana (Newbury Street) og allt um kring má finna fræga háskóla með jákvæðum áhrifum sínum á götulífið (Harvard, MIT, Berklee Music College). Svo er allt fullt af afþreyingu fyrir fjölskyldur, bæði söfn og garðar. Frábær borg í einu orði sagt sem ég hlakka til að heimsækja aftur. Reyndar vonast ég til að geta staldrað þar við á leiðinni heim á fimmtudaginn kemur.

Engin ummæli: