miðvikudagur, júní 22, 2011

Ferðalag: Náttúruskoðun í Maine

í dag er síðasti heili dagurinn minn í Maine. Það styttist í leiðinni í heimkomu (eldsnemma á föstudaginn). Ferðin er búin að vera drjúg. Ég hef gert ýmislegt skemmtilegt með Bob. Við fórum á kanó einn daginn, kíktum á Bar Harbour (sem er klettótt og glæsileg strönd og útivistarsvæði), höfum farið í rölt um skóglendið sem er allt í kring og einn daginn skoðuðum við okkur um í Orono Bog Boardwalk. Það er all merkilegur staður sem á sér ekki langar útivistarsögu. Fyrir um það bil tíu árum síðan var smíðuð gönguleið á plönkum um mýrlendi sem staðsett er í miðjum skógi. Gangan segir frá hvernig eitt vistkerfi rennur saman við annað þannig að blandaður skógurinn smám saman þynnist og opnast inn á bersvæði sem minnir furðumikið á túndru og þær heiðar sem við erum von að sjá á Íslandi. Bob er vistfræðingur að mennt og gat sýnt mér ýmsar merkilegar plöntur á svæðinu, meðal annars athyglisverða ránplöntu (Pitcher plant). Ég er búinn að nota myndavélina óspart og hlakka til að sýna afraksturinn heima.

Hér er dýralíf mjög fjölskrúðugt. Ég hef séð alls konar dýrum bregða fyrir en hef verið séstaklega upptekinn af litríkum fuglum allt í kring. Hér er náttúran mjög nátengd hýbýlum manna. Húsin eru einföld, lífsstíllinn rólegur og náttúran nærtæk. Það eru ekki margir staðir í Bandaríkjunum sem státa af þessari blöndu.

Engin ummæli: