mánudagur, mars 14, 2011

Fréttnæmt: Síminn yngist upp

Lengi vel hef ég verið ákaflega óáreiðanlegur gemsanotandi. Með semingi eignaðist ég fyrsta gemsann minn fyrir um tíu árum - gefins - og notaði nokkur ár. Hafði stundum kveikt á honum, oft slökkt. Mörgum árum síðar gaf hann sig og ég fékk notaðan síma að láni og var með hann í eitt eða tvö ár þar til síminn hennar Vigdísar þótti nógu úreltur til að hún fengi sér nýjan. Þá fékk ég hann sjálfkrafa. Fínn sími: gamall Nokia. Svo eignaðist Ásdís systir hennar líka nýjan síma. Hún átti fyrir nákvæmlega eins gamlan Nokia og Vigdís og ég naut góðs af því. Þá átti ég allt í einu tvo eins! Þann fyrri notaði ég í mörg ár. Hann var farinn að verða talsvert snjáður og einn takkanna var orðinn óvirkur. Það var leiðinlegt sambandsleysi í hleðslutækinu þar að auki. Þegar rafhleðslan var farin að trufla mig, skjárinn hættur að sýna hleðslutáknið og síminn farinn að slökkva á sér fyrirvaralaust mundi ég loksins eftir hinum símanum sem ég átti einhvers staðar. Hann tók ég loks í notkun fyrir nokkrum mánuðum eftir rúmlega árs vesen með hinn. Hleðslutækið virkar núna eins og herforingi og síminn er glansandi fínn, eins og beint úr búðinni. Núna nenni ég að standa í því að hlaða hann. Hins vegar var rafhleðslan orðin slöpp eftir fyrri notkun. Það var svo sem fyrirsjáanleg þannig að ég sætti mig bara við það þar til ég uppgötvaði að síminn tæmdi sig nánast um leið og hleðslutáknið gaf til kynna að síminn væri ekki lengur fullur. Frekar slæmt. Svo lenti ég í fyndinni uppákomu um daginn sem fékk mig til að kippa þessu í liðinn:

Ég var búinn að mæla mér mót við Jón Má niðri í bæ. Báðir vorum við með gemsa og töluðum okkur ekki nákvæmlega saman til um það hvernig og hvar við skyldum hittast. Ég náði ekki í hann úr heimasímanum á leiðinni út og ákvað að sitja fyrir honum þar sem ég hef oftast hitt hann, í Eymundsson. Þá sá ég að hleðslutáknið í gemsanum var farið að láta á sjá. Ég reyndi að hringja í hann úr búðinni en síminn gaf sig undir eins. Þá kveikti ég aftur því ég vissi að hann réði að minnsta kosti við SMS og náði að senda Jóni skilaboð um að senda mér SMS með upplýsingum um það hvar ég væri staddur. Svo leið og beið og ekki hafði hann samband. Um hálftíma síðar birtist hann á glugga í dimmum vetrarnæðingnum á leiðinni upp Skólavörðustíginn. Hann hafði beðið eftir mér annars staðar og kom arkandi þvert yfir miðbæinn. Skilaboðin höfðu borist honum þar sem hann sat annars staðar og beið eftir símtali frá mér en sjáflur gat hann ekki hringt til baka eða sent mér SMS því hans sími var innistæðulaus! Frekar óvenjulegt og hefði getað verið meira truflandi en það var í raun. En það vakti mig til umhugsunar.

Ég talaði á sínum tíma við starfsmann í Vodafone um nýtt batterí í símann minn. Það leit út fyrir um tíma að ég gæti ekki notað nýja (gamla) símann minn áfram því nýju gemsarnir eru allir með öðru vísi batterí!!! Þeir selja ekki þessi gömlu lengur. Þannig er maður hálfpartinn þvingaður til að kaupa nýja vöru í sífellu. En sem betur fer er til verslun sem heitir Símabær sem sankar að sér varahlutum úr gömlum símum og á þar að auki lager af gömlum gerðum af batteríum sem hinar verslanirnar nenna ekki að sitja uppi með. Starfsmaðurinn í Vodafone benti mér reyndar á þessa verslun en með þeim varnaðarorðum að það borgaði sig líklega ekki að kaupa rafhlöðuna því hún kostaði líklega svipaði og nýr sími. Ég leyfði mér að efast um það vitandi að þetta er enn eitt trixið til að fá mann til að endurnýja það sem maður á fyrir.

Og hvað kostaði rafhlaðan? Um 2500 krónur! Og ódýrasti gemsinn á markaðnum? Um það bil átta þúsund.

Nú hef ég ekki lengur neina afsökun fyrir því að missa af SMS-skilaboðum og hafa lokað fyrir símann dögum saman. Hins vegar þori ég ekki að lofa því að ég hafi hann á mér öllum stundum. Það er allt annað mál :-)

Engin ummæli: