sunnudagur, mars 06, 2011

Daglegt líf: Tvær tímabærar heimsóknir

Veturinn heldur áfram með sama hætti, gnauðandi og dimmur. Það er eins gott að maður er ekki haldinn skammdegisþunglyndi í þessu tíðarfari. Við í Granaskjólinu erum búin að hafa það býsna notalegt og afslappað í vetur og að mestu tíðindalaust eftir afmæli pabba (sjá síðustu færslu).

Fyrir um viku síðan tók ég mig til og fór í tímabærar heimsóknir. Til dæmis til Bjarts og Jóhönnu. Fyrir næstum því hálfu ári síðan hjálpaði ég þeim að flytja, án þess að hafa tíma til að fylgja því eftir með heimsókn. Ég náði ekki einu sinni að kíkja á nýju íbúðina í flutningunum og einbeitt mér þess í stað að kveðja gömlu ibúðina. Ég sparaði mér heimsóknina í nýju íbúðina þangað til við öll í fjölskyldunni hefðum tíma saman. Sú hugsun var eins og vandratað einstigi. Mánuðirnir liðu. Það var því við hæfi að heimsóknin hæfist með eftirminnilegum ratleik um Hafnarfjörðinn. Síðan lentum við í notalegu kaffihlaðborði. Börnin voru öll dugleg að leika sér á meðan við hin spjölluðum. Börnin eru nefnilega komin á þægilegan aldur hvað þetta varðar, sem gefur tækifæri til fleiri heimsókna. En það vildi einmitt svo skemmtilega til að daginn eftir var ég staddur í Perlunni (á bókamarkaðnum). Þá hitti ég á Stellu og Kristján. Þau hafði ég, með svipuðum hætti, ekki hitt í háa herrans tíð, eða síðan síðasta vor. Þau voru nánast í bakgarðinum heima hjá sér (eiga heima í hverfinu) og buðu okkur umsvifalaust í heimsókn. Þar gat maður, á ný, setið í makindum og spjallað meðan börnin léku sér fyrirhafnarlaust. Ég meira að segja gat gefið mér tíma til að njóta þess að horfa á myndasýningu úr ferðalagi sem þau voru nýkomin úr til Indlands. Það er nú saga að segja frá því hvernig þau komust þangað (svo ég læt hana ósagða) en það var óneitanlega svolítið frískandi að sjá aftur Indland í öllu sínu veldi og deila með þeim Kristjáni og Stellu sameiginlegri upplifun af þessu ótrúlega landi, enda var ég þar á ferðinni sjálfur fyrir um tveimur árum síðan.





.

Engin ummæli: