fimmtudagur, mars 10, 2011

Upplifun: Þrír líflegir dagar

Það er alltaf svolítið fyrir þessari þrennu haft: Bolludegi, sprengidegi og öskudegi. Vigdís bjó til dýrindis bollur, vatnsdeigs, og útbjó þetta fína súkkulaðkrem sem átti að lenda ofan á þeim en var bara betra á milli, með "smá" rjóma. Svo kom sprengidagur. Signý var spenntari fyrir honum og talaði í sífellu um "rakettudag". Ég áttaði mig ekki á misskilningnum fyrr en tiltölulega seint og hafði lengi undrast yfir þessum skyndilega rakettuáhuga! Sprengidagurinn, útskýrði ég, er nefnilega dagurinn þegar maður borðar svo mikið að maður næstum því springur. En því miður stóð sú lýsing nokkurn veginn heima. Ég fékk hringingu í vinnuna upp úr hádegi á sprengidag og frétti að Signý væri veik í maganum. Hún hafði kastað upp og var eitthvað slöpp. Hún var ósköp fegin að sjá mig þegar ég kom i hádeginu og naut þess að vera í góðu yfirlæti með mér heima. Sem betur fer var þetta minna en á horfðist og hún braggaðist ótrúlega hratt og var alveg til í að fá sér aftur baunasúpu um kvöldið. Hún vildi fyrir alla muni ekki missa af öskudeginum. Hann var búinn að "malla" í nokkra daga undir niðri. Þá átti hún að vera Rósalind prinsessa (sem er með vængi, töfrasprota, kórónu og klædd myndarlegum kjól) á meðan Hugrún var búin að panta Helló Kittý. Prinsessunni var auðveldlega reddað en kisunni þurfti að klóra sig fram úr (afsakið orðaleikinn). En vinnustaðurinn minn er þess eðlis, blessunarlega, að hægt er að föndra ýmsilegt svo ég kom heim með fallega pappírsgrímu eftir forskrift af netinu. Hún sló aldeilis í gegn og gerði búlduleitar broskinnar Hugrúnar enn sætari, með bleikt trýni mitt á milli. Þannig mættu þær til leiks og skemmtu sér að vonum vel.

Engin ummæli: