sunnudagur, október 23, 2011

Upplifun: Menningin í október

Október er mikill menningarmánuður á Íslandi nú í seinni tíð. Þar munar mest um Iceland Airwaves tónlistarhátíðina og RIFF, alþjóðlegu kvikmyndahátíðina. Ekki gerði ég neinn sérstakan skurk í þessum efnum í ár. Ég lét tónlistarhátíðina alveg lönd og leið og var eiginlega feginn að þurfa ekki að eltast við hljómsveitir niðri í bæ í skammdeginu (en fattaði eftir á að ég hefði þó vel getað hugsað mér að sjá Sinaed O´Connor). Kvikmyndahátíðina lét ég líka að mestu eiga sig. Ég sá enga hefðbundna kvikmynd en skellti mér þó með Jóni Má á mynd sem gerð var eftir tónlistinni á nýjustu plötu PJ Harvey. Þetta er óvenjuleg mynd að því leyti að hún er ekki samfelld mynd né heldur heimildamynd. Myndin er einfaldlega röð af tónlistarmyndböndum sem binda plötuna enn betur saman sem þematíska heild. Með myndræna þættinum verður ádeila plötunnar á Breskt samfélag nútímans enn sterkari og áhrifameiri og gerir plötuna að magnaðri upplifun. Þeir sem vilja glöggva sig á þessu geta skoðað Youtube-svæði sem kallast Let England Shake eftir heiti plötunnar. Það er ekki margt að gerast í dag í tónlistarheiminum sem hrífur mig en þetta er ánægjuleg undantekning frá því.

Talandi um menningu þá gerði ég það samt engan veginn endasleppt að undanförnu. Ég minntist nýlega á ferð í Borgarleikhúsið þar sem ég reyndar bætti um betur og keypti leikhúskort fyrir Signýju og Hugrúnu og hef þar með skuldbundið mig til að sjá minnst fjórar sýningar með þeim á árinu. Auðvitað verður Galdrakarlinn frá Oz fyrir valinu (sem mér skilst að sér algjör snilld) og svo ætla ég alls ekki að missa af sýningunni "Gói og baunagrasið". Hún verður væntanlega í sama galsafulla anda og hin sýningin sem nú er í gangi á vegum þeirra Góa og Þrastar Leó, Eldfærin. Hún var hreint út sagt stórkostlega fyndin.

En menningin er víða. Við skelltum okkur á þrívíddarsýninguna Lion King fyrir viku síðan. Signý tautaði eitthvað á leiðinni inn í salinn að henni fyndist nú skemmtilegra í leikhúsi en í bíó og var eiginlega ekkert viss um að nenna þessu. Svo hófst sýningin og mín missti hreinlega andlitið þegar hún setti upp gleraugun. Hún teygði fram höfuðið með galopinn munn. Með reglubundnu millibili teygði hún út faðminn til að ná í laufblöð og annað lauslegt á skjánum og hafði greinilega mjög gaman af. Hugrún var mun yfirvegaðri yfir þessu og lét ekki á sjá á meðan sýningu myndarinnar stóð. Hún hefur hins vegar oft talað um þrívíddargleraugun síðan. Núna síðast í dag bað hún mig um að kveikja á sjónvarpinu eftir að hún var nýbúin að pússa skjáinn með blautum þvottapoka. Hún ætlaði nefnilega að setja upp þrívíddargleraugun :-)

Engin ummæli: