sunnudagur, október 23, 2011

Upplifun: Töfraflautan

Október hefur verið menningarlega gjöfull mánuður það sem af er þrátt fyrir að maður hafi ekki haft fyrir því að elta stóru hátíðirnar. Það er ekki bara Borgarleikhúsið, PJ Harvey og Lion King. Um daginn bauðst mér upp úr þurru að fara á forsýningu Töfraflautunnar. Jóhanna hans Bjarts tekur þátt í uppfærslunni og gat boðið upp á miða á generalprufuna. Bjartur hnippti sem sagt í mig og ég var ekki lengi að grípa tækifærið.

Aðalsalurinn í Hörpu er mjög flottur og allt það en hljómburðurinn er magnaður! Það hríslaðist um mig gæsahúð þegar allur söngvaraskarinn lét loks vaða í lokaatriðinu. Fram að því var sýningin búin að vera fjölbreytt og misjöfn. Sum atriðin höfðuðu ekki sérstaklega til mín en önnur voru glæsileg. Papagenó fannst mér ótrúlega lifandi og skemmtilegur fuglafangari. Það er af mörgu að taka og margt sem stendur upp úr en sérstaklega fannst mér gaman að sjá þýðinguna á verkinu. Heil ópera hafði sem sagt verið þýtt á íslensku, með söngvænum stuðluðum textum. Ótrúlega vel gert.

Engin ummæli: