mánudagur, nóvember 28, 2011

Orðaleikur: Jólakveðja

Í stuttri heimsókn um daginn hjá ömmu Sirry (tengdó) nutum við Hugrún og Signý veitinga, eins og venja er á þeim bæ. Vigdís var á námskeiði á sama tíma og því fjarri góðu gamni. Á leiðinni út ætlaði Sirrý að kveðja stelpurnar og ég lagði áherslu á það við þær að kveðja hana nú almennilega. Stundum nota ég orðalagið að "knúsa í klessu" en ákvað að grípa ekki til þess núna. Í staðinn sagði ég bara: "knúsið hana þangað til hún segir æ-æ og ó-ó!" Það vottaði fyrir stríðni í þessari tillögu. Hugrúnu fannst þetta greinlega skemmtileg hugmynd en misskildi hana eitthvað og hefur eflaust haldið að þetta ætti að vera jólakveðja því hún sagði strax við ömmu sína þegar hún greip utan um hana: "Ég ætla að knúsa þig hæ-hæ og hó-hó!"

Engin ummæli: