mánudagur, nóvember 21, 2011

Fréttnæmt: Jarðarför innan stórfjölskyldunnar

Nú um helgina fórum við i fjölskyldunni í jarðarför. Vigdis var að missa ömmu sína og alnöfnu, Vigdísi Einarsdóttur. Þetta var friðsæl athöfn og virðuleg enda var Vigdís eldri komin á tíræðisaldur og sjálf tilbúin að fara. Athöfnin var henni líka sæmandi að því leyti að hún bar sig ávallt vel og kvartaði aldrei. Hún hafði húmor fyrir sjálfri sér en bar hins vegar mikla virðingu fyrir öllu í kringum sig. Hún lifði með mikilli reisn fram á síðustu stundu.

Signý og Hugrún fóru með okkur Vigdísi í jarðarförina. Venjulega hefði það ekki komið til greina en þar sem um friðsæla kveðjustund var að ræða þótti okkur skynsamlegt að leyfa þeim að upplifa þessa hlið lífsins. Þær þekktu Vigdísi eldri ágætlega, voru reyndar alltaf pínu feimnar við hana af því hún var orðin svo gömul, en eiga samt góðar minningar tengdar henni. Við ræddum við þær kvöldið fyrir og fundum að þær voru tilbúnar. Þær komust ekkert í uppnám en urðu svolítið hugsi. Daginn eftir vöknuðu þær og voru greinilega tilbúnar: "Í dag setjum við langömmu í jörðina" sögðu þær og fóru yfirvegað og rólega á fætur. Þær fengu að vera heima í rólegheitum (í stað skóla og leikskóla) enda var jarðarförin rétt upp úr hádegi.

Stelpurnar tóku hlutverk sitt mjög alvarlega og hvísluðu allan tímann í kirkjunni. Ég var hissa á því hvað þær gátu verið rólegar. Þær þurftu að hreyfa sig öðru hvoru og fóru til skiptis í fangið á mér (Vigdís sat annars staðar af þvi hún var kistuberi). Þær fylgdust náið með söngtextunum þegar ég renndi fingri undir orðin enda eru báðar á fullu að læra að lesa. Þess á milli skimuðu þær um kirkjuna, fengu mig til að lyfta sér aðeins til að sjá betur glitta í kistuna og kíktu svo reglulega upp á söngvara og organistann. Þær eiga eflaust eftir að muna eftir þessu alla sína tíð.

Athöfninni lauk þannig að Ásdís gekk í fylkingarbrjósti á undan kistuberum með blómsveiginn út kirkuna - með Signýju og Hugrúnu sér við hlið. Ásdís er ólétt og kom því ekki til greina sem kistuberi en það var mat manna að þetta hafi komið einstaklega fallega út. Kynslóðir koma og kynslóðir fara.

Engin ummæli: