mánudagur, nóvember 28, 2011

Upplifun: Aftur í sjónvarpinu

Nú gerðist það aftur um helgina að fjölskyldan í Granskjóli 11 birtist á skjám landsmanna, í þetta skiptið í boði Stöðvar tvö. Við fórum fjögur í sund á föstudegi, eins og við höfum gert undanfarnar vikur, en í stað þess að fara í Neslaugina (sem oftast hefur orðið fyrir valinu á föstudögum) ákváðum við að fara í Vesturbæjarlaug. Tilefnið var stórafmæli - enda 50 ár frá vígslu laugarinnar. Við sáum í hendi okkar afslappaða laugarferð, mættum snemma, á undan veislunni og ætluðum okkur að koma upp úr lauginni á tilsettum tíma og enda dvölina með kaffi og kökum. Sú varð raunin en í kaupbæti fengum við að auki fréttamenn í heimsókn. Hugrún hét hún, fréttakonan á Stöð tvö, sem súmmaði upp að sællegu fjölskyldunni í barnapottinum eftir að hafa hringsólað kringum laugina drjúga stund og tekið ýmsa tali. Viðtalið var ábyggilega tvær mínútur með Vigdísi og Hugrúnu í aðalhlutverkum. Það sem á endanum rataði í sjónvarpið var hins vegar ekki meira en örfáar sekúndur. Vigdís var fegin að hafa verið klippt út en ég var henni ekki sammála. Viðtalsbúturinn við hana var prýðilegur og hefði vel sómt sér á skjám landsmanna. Hugrún fékk hins vegar athyglina og það jafnaði að einhverju leyti út minninguna um að hafa misst af hárgreiðslunámskeiðinu fyrr í haust þegar Signý varð pínu fræg :-)

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

þetta var svo sætt!!!!
kv. Begga