þriðjudagur, febrúar 15, 2011

Þroskaferli: Grunnskólaval

Við Vigdís fórum með Signýju í gær í heimsókn í Grandaskóla. Já, hún er um það bil komin á grunnskólaaldur, ótrúlegt að hugsa sér það! Við fórum á eigin vegum um skólann vegna þess að leikskólinn hennar er á öðru þjónustusvæði og hefur verið að fara með krakkana í Melaskóla. Við erum hins vegar búsett nær Grandaskóla. Skólinn er að mörgu leyti fýsilegri en Melaskóli. Hann er talsvert minni (um það bil 250 nemendur, samanborið við tæplega 500, líklegast) og því auðeldara að halda utan um skipulagið. Mér finnst þetta talsvert stórt atriði því ég er þeirrar skoðunar að grunnskólar Reykjavíkur séu upp til hópa óttaleg bákn og stirðbusalegar rekstrareiningar. Því smærri sem skólinn er því meiri líkur eru á að hægt sé að koma til móts við þarfir einstaklinganna. Byggingin er að minnsta kosti snotur og vinaleg og hefur ýmsa kosti smæðarinnar umfram Melaskóla, sem reyndar er einn fallegasti skóli landsins (að minnsta kosti séð að innan). Stóri kosturinn er hins vegar sá að Signý þarf ekki að fara yfir fjölfarna umferðargötu á leiðinni í skólann og tvær af hennar bestu vinkonum fara sömuleiðis þangað. Svo hef ég hlerað það frá ýmsum aðstandendum og sjálfum fóstrunum í leikskólanum að það fari sérlega gott orð af Grandaskóla. Tónlistarkennslan er óvenju vegleg og skólastjórinn er sjálfur myndlistarmaður að upplagi og er líklegur til að standa vörð um verkmenntir skólans á niðurskurðartímum. Ég hef því tröllatrú á þessu næsta skrefi okkar, sem við reyndar tökum með semingi. Það er óskaplega þægilegt að vera áfram með börnin í öryggishjúpi leikskólans. En allt fram streymir...

1 ummæli:

Begga frænka sagði...

Skítið að litla skottið sé að fara í skóla ... og stutt í að Hugrún bætist við .